Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Tíð barnslát á Keflavíkurflugvelli vekja upp spurningar
Fimmtudagur 23. október 2003 kl. 11:43

Tíð barnslát á Keflavíkurflugvelli vekja upp spurningar

-fimm börn varnarliðsmanna hafa látist í móðurkviði eða í fæðingu frá því í febrúar á þessu ári. Áhyggjuefni og tilefni til frekari rannsókna segja læknar.

Frá því í febrúar á þessu ári hafa fimm börn varnarliðsmanna látist í móðurkviði eða strax eftir fyrirtímafæðingu. Eitt barnið fæddist fyrir tímann eftir aðeins 23 vikna meðgöngu, tvö létust í móðurkviði eftir 25 og 32 vikna meðgöngu og tvíburar fæddust 12 vikum fyrir tímann og létust á spítala í Reykjavík. Læknar sem Víkurfréttir hafa rætt við segja að tíðni fyrirburafæðinga innan Varnarliðsins undanfarið sé mikið áhyggjuefni og tilefni til frekari rannsókna. Í yfirlýsingu frá Varnarliðinu vegna fréttarinnar segir að þetta séu ekki talin óeðlilega mörg tilvik af þessu tagi.

Atli Dagbjartsson yfirlæknir vökudeildar Landspítala Háskólasjúkrahúss staðfesti í samtali við Víkurfréttir að börnin þrjú hafi öll fæðst á 23. til 27. viku meðgöngu, en eðlilegur meðgöngutími er 38 til 42 vikur. Atli segir að 12 til 15 fyrirburafæðingar barna sem vega minna en 1000 grömm við fæðingu, en sú fæðingarþyngd svarar til 28 vikna meðgöngu, eigi sér stað á Íslandi á ári. Það er um 0,3% fæðinga, en fæðingar á Íslandi eru alls um 4.400 á ári. „Börn sem fæðast fyrir 38. viku meðgöngu eru fyrirburar og 5% fæðinga eru fyrir þann tíma. Litlar sem engar líkur eru á að barn sem fæðist fyrir 24. viku lifi og eru lífsmöguleikamörk fyrirbura eftir fullgengnar 24 vikur,“ segir Atli. Í yfirlýsingu frá Varnarliðinu segir að fyrirburafæðingar séu ekki óalgengar og að líkur séu ávallt háar á fyrirburafæðingum tvíbura. „Hlutfall látinna barna í móðurkviði í þessu tilviki er einungis 0,64% miðað við 1-2% sem er meðaltal í Bandaríkjunum. Meðgöngur og fæðingar hjá Varnarliðinu eru að jafnaði um 80 á ári,“ segir í yfirlýsingunni.

Atli segir að miklar vangaveltur séu um það hvað komi af stað fyrirburafæðingu. „Ýmsir þekktir þættir koma til eins og t.d. að legvatnið fer og það er einstöku sinnum þekkt að fæðing fari af stað við slys eða áföll. Á síðustu tveimur áratugum hafa læknar hinsvegar farið að beina sjónum sínum að sýkingum á meðan á meðgöngu stendur. Menn telja nú að þeim fyrirburafæðingum sem engin skýring finnst á fari mjög fækkandi og á sama tíma eykst vitneskja um að sýkingar valdi fyrirburafæðingum. Sýkingin fer upp í leghálsinn og í vefjunum verða efnabreytingar sem losna úr læðingi og við það linast vefurinn og leghálsinn gefur sig og fæðing fer af stað.“

Um 25% íslenskra kvenna hafa sýkingu í leggöngum  sem orsakast af bakteríutegundinni hemólýtískum streptókokkum af flokki B, en í Læknablaðinu var nýlega skrifuð grein um rannsókn sem greindi frá þessum niðurstöðum. Atli segir að um 1% af börnum kvenna sem ganga með sýkinguna veikist alvarlega af völdum bakteríunnar. „Um það bil einu sinni á ári fáum við börn með sýkinguna sem veikjast á fyrsta sólarhring og er það jafnan mjög erfitt viðfangs. Í sumum nágrannalöndum er leitað að þessari bakteríu á meðgöngu og konunum gefið sýklalyf í fæðingu til að komast hjá sýkingu í litla barninu. Í athugun er að gera slíkt hið sama hér á Íslandi.“

Læknar sem Víkurfréttir hafa rætt við segja að um ákveðinn topp geti verið að ræða í þessum tilfellum innan Varnarliðsins.

 

Ljósmynd: Mats Wibe Lund

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024