Þyrla sækir slasaðan sjómann í Gnúp GK
Þyrla Landhelgisgæslunnar var fyrir stundu kölluð út eftir að togarinn Gnúpur GK frá Grindavík hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar eftir slys um borð í togaranum. Læknir úr áhöfn þyrlunnar fékk upplýsingar um ástand skipverjans og ákveðið var að hann yrði sóttur. Frá þessu er greint á mbl.is nú áðan.
Maðurinn féll um borð og er með bakmeiðsli, segir í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni. Togarinn er staddur á Reykjaneshrygg eða við efnahagslögsögumörkin. Þyrlan er við það að fara frá Reykjavíkurflugvelli en áætlað er að um 1 ½ tíma taki að fljúga að togaranum.
Gnúpur GK fer úr höfn í Grindavík. Ljósmynd: Hilmar Bragi Bárðarson