Þyrla lendir við Heiðarskóla
Þyrla Landhelgisgæslunnar mun lenda við Heiðarskóla uppúr hádegi á laugardag. Gert er ráð fyrir að þyrlan lendi á svæðinu þrisvar sinnum. Ástæðan er þátttaka þyrlunnar í flugslysaæfingu á Keflavíkurflugvelli. Heiðarskóli gegnir hlutverki sjúkrahúss í æfingunni og mun þyrlan flytja slasaða þangað.
Nokkuð ónæði getur skapast þegar þyrla lendir í miðri íbúðabyggð en lögreglan á Suðurnesjum mun loka svæði umhverfis lendingarstaðinn svo ekki skapist hætta.