Þyrilvængjan í Keflavík í nótt
Þyrilvængjan, herflugvél af gerðinni Bell Boeing Osprey V-22, sem hafði viðkomu í Keflavík í dag verður hér á landi í nótt. Vélin vakti sannarlega athygli þegar hún tók á loft nú síðdegis. Þá var talið að vélin væri að fara en hún kom aftur inn til lendingar. Vélin er mjög sérkennileg til vængjanna, en hún hefur bæði eiginleika flugvélar og þyrlu. Þannig tekur vélin á loft og lendir eins og þyrla.
Mjög skemmtilegt nafn er yfir loftför sem þetta en vélin kallast þyrilvængja (Rotorcraft): Vélin er skilgreind sem vélknúið loftfar, sem er þyngra en loft og helst á flugi vegna verkana loftsins á einn eða fleiri þyrla.
Áhöfn vélarinnar skipa þrír menn, tveir flugmenn og flugliði. Þá getur hún flutt 24 hermenn með búnaði. Flugdrægni vélarinnar er um 3900 kílómetrar í ferjuflugi en rúmir 2000 kílómetrar í hernaði. Flughraði er um 500 km./klst.
Þróun þessarar flugvélar gekk ekki áfallalaust fyrir sig en nokkrar svona flugvélar hafa farist á þróunarferlinu.
Víkurfréttir náðu ekki nógu góðum myndum af þyrilvængjunni í dag en að sjálfsögðu eigum við hauka í horni víða og okkur bárust myndir í kvöld sem teknar voru á Keflavíkurflugvelli undir kvöld.
Án efa á flugáhugafólk eftir að sitja um Keflavíkurflugvöll á morgun og sjá þetta sérkennilega loftfar yfirgefa völlinn, enda nokkuð sérstakt að sjá flugvél taka á loft með þessum hætti.
Mynd: Þyrilvængjan á Keflavíkurflugvelli í kvöld.
Sjá fleiri myndir í Ljósmyndasafni VF