Þúsundasti nemandinn útskrifaður af Háskólabrú Keilis
- 1.709 nemendur hafa útskrifast frá Keili.
Keilir útskrifaði 102 nemendur af fimm brautum í dag og hafa þá í allt 1.709 nemendur útskrifast frá skólanum síðan hann hóf störf árið 2007. Útskrifaðir voru nemendur af Háskólabrú, einkaþjálfaranámi, flugumferðarstjórn, flugþjónustu og atvinnuflugmannsnámi.
Þau tímamót voru við þetta tækifæri að þúsundasti nemandinn útskrifaðist af Háskólabrú og féll sá heiður Valgerði Grétu Guðmundsdóttur. Fékk hún viðurkenningu frá Keili. Þá útskrifaðist Andrés Magnús Vilhjálmsson frá Verk- og raunvísindadeild með hæstu einkunn Háskólabrúar til þessa eða 9,56 í meðaleinkunn, og var hann jafnframt dúx.
Aðrir dúxar voru sem hér segir: Jakob Þór Eiríksson í flugumferðarstjórn með 8,94 í einkunn, Jónas Hallgrímsson í atvinnuflugmannsnámi með 8,52 og Svana Ósk Jónsdóttir af flugþjónustubraut með 9,57 í meðaleinkunn. Icelandair, Flugfélag Íslands, ISAVIA og Íslandsbanki veittu dúxum deildanna viðurkenningar.
Hjálmar Árnason framkvæmdastjóri Keilis flutti ávarp og Valdimar Guðmundsson flutti tónlistaratriði ásamt Björgvini Ívar Baldurssyni gítarleikara. Ræðu útskriftarnema fyrir hönd Flugakademíu Keilis flutti Bylgja Sif Árnadóttir nemandi í flugumferðastjórn, og Hilmar Bjarnason fyrir hönd Háskólabrúar.
Árni Sigfússon, stjórnarformaður Keilis og bæjarstjóri í Reykjanesbæ, heiðraði þúsundasta útskrifaða nemandann á Háskólabrú.
Útskriftin fór fram að viðstöddu fjölmenni í Andrews leikhúsinu á Ásbrú í Reykjanesbæ.