Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þurfum að móta heildarsýn sem tekur mið af þessari náttúruvá
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, í aðgerðarstjórninni í Reykjanesbæ á tali við Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóra, og hans fólk. VF/pket
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 15. febrúar 2024 kl. 08:42

Þurfum að móta heildarsýn sem tekur mið af þessari náttúruvá

– segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sem heimsótti Suðurnesin. Aðrir möguleikar með heitt vatn skoðaðir á lághitasvæði á Njarðvíkurheiði.

„Það er þannig að orkumálin eru efst á baugi hjá öllum. Við þurfum að móta heildarsýn fyrir þetta svæði. Það er vinna farin af stað hér og þar um þau mál en það þarf að hafa heildarsýn sem tekur mið af þeirri náttúruvá sem við getum reiknað með á komandi misserum og árum,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, en hún heimsótti sveitarfélögin á Suðurnesjum á mánudag þar sem hún átti samtal við ráðamenn um þá stöðu sem nú er uppi í kjölfar heitavatnsleysis sem varð þegar hraunstraumur frá eldgosinu rauf heitavatnslögn síðastliðinn fimmtudag.

Katrín hóf daginn á fundi í Suðurnesjabæ. Þaðan fór hún til fundar í Reykjanesbæ. Áður en haldið var í Sveitarfélagið Voga kom hún við í aðgerðastjórn almannavarna á slökkvistöðinni í Reykjanesbæ. Katrín fór svo og skoðaði bráðabirgðalögnina sem lögð hefur verið yfir hraunið við orkuverið í Svartsengi. Þá fundaði hún með HS Veitum og HS Orku í Svartsengi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Framleiðsla og flutningskerfi taki mið af náttúruvá

„Við höfum búið við alveg ótrúleg forréttindi undanfarnar aldir getum við sagt á þessu svæði og heita vatnið sem hér er, þessi mikla auðlind og þessi mikla orka, sprettur úr því að hér er eldvirkt svæði. Það er búið að vera að kortleggja og máta ólíkar sviðsmyndir. Það þarf að horfa til þess að bæði flutningskerfi og framleiðsla þarf að taka mið af því hvað við getum búist við náttúruvá á næstu árum og áratugum. Það eru kannski ekki endilega hagkvæmustu leiðirinar. Þarna þurfum við að horfa á ákveðna dreifistýringu, þannig að við séum með varaleiðir fyrir það sem uppá getur komið. Við þurfum að horfa á hvernig flutningskerfið er skipulagt. Eins og staðan er núna erum við með stóran hluta flutningskerfisins á því svæði sem er mjög viðkvæmt fyrir náttúruvá. Auðvitað kannski eðlilega því það hefur verið metin hagkvæmasta leiðin og stysta leiðin. Þetta þarf að skoða með okkar bestu sérfræðingum. Mér finnst hins vegar þetta fólk sem er að vinna hjá HS Veitum og HS Orku búið að vinna alveg ótrúlegt starf á undanförnum dögum, að bregðast mjög skjótt við.

Það má ekki gleyma því að þessi lögn sem gekk ekki eftir að setja í gang á föstudaginn, hún hafði verið í undirbúningi frá því í nóvember og það var búið að vera að meta aðrar leiðir, varnargarða og annað slíkt, sem var ekki metið fýsilegt. Það er búið að vera að vinna í þessu. Það sem þarf núna að gera í þessu, og það þarf að finna þann tíma sem er til staðar þegar fólk er í stöðugu viðbragði, það er að horfa til lengri tíma sýnar.“

Nú er ljóst að heita vatnið spilar stórt hlutverk í öllu hérna. Það sýndi sig núna þegar Reykjanesskaginn verður heitavatnslaus.

„Þetta var sviðsmynd sem við sögðum að gæti komið upp. Ég vil líka segja það, og ég hef hitt all marga í morgun, og þvílíkt æðruleysi og þvílík jákvæðni gagnvart því að takast á við þessa stöðu.“

Eitt af því sem komið hefur upp í umræðuna er að það þurfi að vera önnur hitaveita og það er alveg ljóst að hún kostar fullt af peningum. Er það eitthvað sem þú sérð sem sterkan möguleika að farið verði í?

„Já, við erum þegar lögð af stað með að fara í boranir til að kanna lághitasvæði á Njarðvíkurheiði. Það er farið af stað. Það hafa verið uppi hugmyndir hér um sorpbrennslustöð og mögulega nýtingu hennar, en það er eitthvað sem á eftir að skoða til fulls. Ég heyri það að sveitarstjórnarfólk og þau sem eru hér í hringiðunni eru að velta fyrir sér þessum ólíku leiðum, eins og ég segi dreifstýrðari leiðir dreifa áhættunni.“

Úrlausnarefni fyrir okkur

Einn möguleiki hefur verið að nýta Reykjanesvirkjun og flytja hitaveitu til Njarðvíkur þannig.

„Það er eitt af því sem er líka til umræðu. Þetta eru allt þessar framtíðarleiðir. Í dag erum við bara hins vegar að hugsa um lögnina og hvernig mun ganga að koma heitu vatni á. Það er viðbragð dagsins og alveg ótrúlega gott fólk sem hefur verið í þessu allan sólarhringinn undanfarna daga.“

Þetta er pínu snúið þar sem eignarhaldið kemur inn í þetta og hver ætti að bera kostnað af nýrri hitaveitu.

„Það er eitt af því sem við þurfum að ræða. Stjórnvöld, orkufyrirtækin og veitufyrirtækin eru líka lykilaðili. Hér hefur fólk verið að hita híbýli sín upp með rafmagni en kerfið er ekki gert fyrir það. Hér hefur fólk þurft að spara rafmagn í nokkra daga. Þetta er auðvitað úrlausnarefni fyrir okkur.“

Sem að þið munið vinna á næstunni?

„Já, algjörlega. Þetta dreifist víða um stjórnkerfið og ástæðan fyrir því að ég er hér í dag er meðal annars að ég vil tryggja að þetta verkefni fari af stað með samræmdum hætti. Það er búið að vinna í þessu máli hér og þar í kerfinu og nú þarf að setja þetta allt saman í eina mynd.“

Það er búið að tala mikið um þetta í mörg ár. Er ekki komið að því núna að negla einhverjar áætlanir og setja eitthvað í gang?

„Það þarf að setja eitthvað í gang. Það er búið að ræða mikið og kortleggja mikið en nú þarf að keyra af stað og ég heyri að það eru allir tilbúnir í það. Allir tilbúnir til að vinna saman. Hér eru sameiginlegir hagsmunir þó þetta séu ólík sveitarfélög og það skiptir öllu máli að þau vinni saman að þessu með stjórnvöldum,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, í samtali við Víkurfréttir.