Þurfum að fara varlega í þessu máli
-sagði Guðbrandur Einarsson bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ varðandi mengun frá verksmiðjum í Helguvík. Sjálfstæðismenn ítrekuðu að mengun væri undir viðmiðunarmörkum þótt þrjár verksmiðjur risu.
„Það gladdi mig ekki að heyra að þetta hefði verulega neikvæð áhrif á næsta umhverfi. Mér er það nú til efs að að þrjár verksmiðjur rísi. Það er ansi langt í að álver miðað við stöðuna í dag. Við værum því að tala um allt aðra hluti ef þetta verða bara tvær verksmiðjur en ekki þrjár. En við þurfum að fara varlega í þessu. Norðanátt er ríkjandi átt og því mun reykurinn fara mikið yfir bæinn. Vonandi getur Umhverfisstofnun upplýst okkur betur um málið. Hún hefur ekki lagt blessun sína á þetta,“ sagði Guðbrandur Einarsson, bæjarfulltrúi og oddviti Beinnar leiðar á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ í vikunni í umræðum um mengun frá verksmiðjum í Helguvík. Skipulagsstofnun lagði nýlega fram álit sitt á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðra kísilverksmiðju Thorsils.
Árni Sigfússon oddviti Sjálfstæðismanna og fyrrverandi bæjarstjóri segir að ekkert í skýrslu Skipulagsstofnunar hafi komið á óvart. „Þetta er staðfesting á því að það þarf að fara vel með þetta verkefni og tryggja að ekki sé farið yfir mengunarmörkin og fylgst með því.“
Böðvar Jónsson (D) segir að niðurstaða Skipulagsstofnunar sé á þann veg að öll þessi áhrif væru innan þeirra viðumiðunarmarka sem gert var ráð fyrir. Jafnvel þó þessi 3 fyrirtæki færu öll af stað væru sameiginleg áhrif þeirra vegna umhverfismengunar innan þeirra miðviðunarmarka sem gert er ráð fyrir.
Frá undirritun samninga við Reykjanesbæ árið 2014.