Þurfa að svelta sig í aðstoð frá bænum
Kristján Gunnarsson, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis segir vandamál Suðurnesja vera atvinnuleysi og að hér sé fólk í verulegum vanda vegna þess. Þá horfi Suðurnesjamenn fram á þvílíka holskeflu af nauðungarsölum. „Fólk engist út af þessu ástandi. Óvissan er algjör og ef það bætist svo ofaná að fólk verði rekið út út húsum sínum... Ég get bara ekki hugsað um þetta. Þetta er svo skelfilegt,“ segir Krisján í viðtali við Víkurfréttir.
Fólk að missa atvinnuleysisbætur
Atvinnuleysi hjá félagsmönnum Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis hefur minnkað en yfir 20 prósent félagsmanna VSFK voru án atvinnu í sumarbyrjun en þessi tala er komin niður í 16 prósent. Flestir þeirra sem eru í atvinnuleit eru búsettir í Reykjanesbæ. Atvinnuleysið nú er svipað og það var upp úr 1990 en þá var það um stuttan tíma og skýrðist af samdrætti í fiskvinnslu. Nú er atvinnuleysið öðruvísi og einkennist af því að hafa varað í langan tíma og að sögn Kristjáns er það farið að bíta bæði illa og sárt í félagsmenn hans.
- Hvernig skýrir þú þessa fækkun?
„Við höfum farið vel ofan í hana og reynt að finna út hvar hún liggur. Ein skýringin er sú að fólk er að fara af atvinnuleysis-skrá af því að það hefur verið þar í þrjú ár eða lengur. Þá telst vera bati í kerfinu og fólk er ekki lengur atvinnulaust en þá er fyrst vandamál hjá fólkinu. Þá er það bæði búið að missa vinnuna og atvinnuleysisbæturnar“.
Þurfa að svelta sig í aðstoð frá bænum
- Hvað tekur þá við?
„Næsta öryggiskerfi þessa fólks er framfærsla sem það fær frá bæjaryfirvöldum en þá þarf fólk að passa inn í kvarðann hjá bænum sem er um 115 þúsund krónur á mánuði. Á móti kemur að atvinnuleysisbætur eru um 150 þúsund krónur og því þarf fólk að svelta sig niður í kvarðann sem bærinn hefur til viðmiðunar til að greiða út sínar bætur. Þetta er ömurlega staða hjá fólki og algjört svarthol að lenda í. Við höfum fengið hingað inn til okkar þó nokkuð marga aðila sem eru að lýsa þessum aðstæðum, jafnvel þar sem báðar fyrirvinnur eru án atvinnu. Það eru dæmi þess að fólk sé að lenda í þeim aðstæðum að önnur fyrirvinnan sé að missa bótarétt til atvinnuleysisbóta en fái ekki framfærslu hjá bænum, því makinn hafi of háar tekjur við það eitt að vera á atvinnuleysisbótum.
Ofuráhersla á lengri bótatíma
Þess vegna höfum við hjá verkalýðsfélaginu verið að leggja á það ofuráherslu við stjórnvöld að lengja bótatíma atvinnuleysisbóta um eitt til tvö ár. Það er aðeins farið að bera þann árangur að það er að komast á umræðustig. Jafnvel þó þetta væru sértækar aðferðir í eitthvern tíma, þá myndi það hjálpa þessum hópi umtalsvert,“ segir Kristján.
Hann segir umkvörtunarefni sinna félagsmanna aldrei hafa verið eins mikil og núna og þá hafi styrkir VSFK farið tvöfalt fram úr því sem er í venjulegu árferði.
Karlar eru í meirihluta þeirra félagsmanna VSFK sem eru án atvinnu. Karlarnir hafa verið að koma úr mannvirkjagerð og byggingaiðnaði og eins er áberandi að þeir sem eru án atvinnu í dag höfðu verið í hlutastörfum þegar þeir misstu vinnuna.
Kristján segist hafa verulegar áhyggjur af þeim hópi sem muni missa vinnuna úr hópi starfsmanna Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja ef fer sem horfir og áform um niðurskurð á HSS komi til framkvæmda. Störfin þar séu mikið til kvennastörf og mikið af þessu fólki er í hlutastarfi á HSS. Þá hefur Kristján áhyggjur af því að uppsagnir séu farnar að bitna á þjónustu við Suðurnesjamenn og þá sem minnst mega sín og bendir þar á uppsagnir sem tilkynntar hafa verið hjá Ragnarsseli og bitna á skjólstæðingum Þroskahjálpar á Suðurnesjum.
Bitnar á þeim sem minnst mega sín
„Allur þessi samdráttur og uppsagnir bitnar mjög á þeim sem standa lökustum fæti hér í samfélaginu“.
Kristján segist taka Steingrím J. Sigfússon fjármálaráðherra á orðinu eftir þingræðu á mánudagskvöld og nú sé kominn tími til að takast á við hlutina.
- Hvaða aðgerðir eru nauðsynlegar strax?
„Það þarf að fara í neyðaraðgerðir strax á svæðinu. Það þarf að ryðja öllum þröskuldum úr vegi sem eru í atvinnuskapandi verkefnum á Suðurnesjum og í hvaða orði sem það felst. Að það séu ekki hindranir varðandi þær hugmyndir sem eru hér í gangi og það þurfi endalaust að bíða eftir úrskurðum. Það þarf að fjarlægja þessa tálma á veginum og vinda sér beint í framkvæmdirnar.
Fjármagnið er komið
Norðurálsmenn hafa margoft lýst því yfir að þeir séu tilbúnir, þeir séu tilbúnir með peningana og komnir með fjármögnun og allt orðið klárt. Þar væri hægt að setja af stað fjöldann allan af ágætlega launuðum störfum strax og það er eitthvað sem við hjá VSFK sjáum koma mjög hratt inn. Það eru hugmyndir í gangi með svo fjölmargt eins og greint hefur verið frá undanfarið. Þá þarf að endurskoða þau niðurskurðaráform sem liggja í loftinu hjá sjúkrahúsinu. Ég hefði nú frekar viljað sjá aukna þjónustu og að HSS geti tekið að sér verkefni. Það er ömurlegt til þess að vita að vera með fullkomna skurðstofu og góðar aðstæður, en láta þetta standa tómt“.
Tekur allt heila eilífð
Kristján nefnir einnig stórt ylræktarverkefni á tómötum á Suðurnesjum sem verið hefur til skoðunar í marga mánuði, þó svo hljótt hafi farið. Það verkefni, ef af verður, mun skapa fjölmörg störf hjá sérhæfðu verkafólki. „Það er samt eins og þessi verkefni þurfi að fara allt í óskaplegar umsagnir, pælingar og útreikninga, sem tekur heila eilífð í því ástandi sem hér ríkir,“ segir Kristján.
Kristján segir að það gagni lítið að vera að leita að sökudólgum í dag. Suðurnesjamenn hafa haft þá tilfinningu að hús ríkisstjórnarinnar væri eingöngu byggt úr þröskuldum. Nú sé hins vegar ástæða til að leggja til hliðar allt þras og koma sér að því að framkvæma og skapa atvinnu.