Þurfa að grenndarkynna loftnet
HS Veitur þurfa að grenndarkynna fyrirhuguð loftnet sem þarf að setja upp á dreifistöðvar veitufyrirtækisins í Grindavík. Loftnetin eru fyrir safnstöðvar vegna nýrra mæla sem nú er unnið að því að setja upp á hitaveitugrindum á heimilum á Suðurnesjum. HS Veitur vinna að því að skipta út hemlum í stað nýrra mæla.
Ármann Halldórsson, sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs Grindavíkurbæjar, kynnti málið og svaraði fyrirspurnum á síðasta fundi bæjarstjórnar Grindavíkur.
Á fundinum var lögð fram tillaga þar sem lagt er til að fresta málinu þar til fram hefur farið grenndarkynning sem HS Veitur standi fyrir. Tillagan var samþykkt með 6 atkvæðum en Páll Jóhann Pálsson bæjarfulltrúi sat hjá.