Þurfa að endurskoða forsendur leigusamninga hjá tólf einstaklingum
Niðurstöður könnunar sem framkvæmd var í sumar meðal leigjenda í félagslegu húsnæði hjá Reykjanesbæ um hvort leigjendur uppfylli skilyrði fyrir áframhaldandi búsetu í félagslega húsnæðiskerfinu voru kynntar á fundi velferðarráðs Reykjanesbæjar fyrir helgi.
Send voru út 154 bréf, 116 í gegnum Mitt Reykjanes og 38 í bréfpósti. Bréfunum var fylgt eftir með símtölum. Gögn eru frá 108 aðilum af 154. Svarhlutfall er 70%.
Af þeim sem svöruðu uppfylla tæp 90% leigutaka skilyrði tekju- og eignamarka fyrir búsetu í félagslegu húsnæði. Hjá 12 leigjendum þarf að endurskoða forsendur leigusamninga auk þess sem það vantar gögn frá 46 leigjendum.
Farið verður betur yfir stöðu þeirra einstaklinga sem ekki uppfylla lengur skilyrði fyrir búsetu í félagslegu húsnæði m.t.t. uppsagnar og leitað leiða til að afla gagna hjá þeim leigjendum sem ekki hafa skilað gögnum vegna könnunarinnar.