Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þungt hljóð í lögreglumönnum
Mánudagur 10. mars 2008 kl. 19:40

Þungt hljóð í lögreglumönnum

Lögreglumenn á Suðurnesjum óttast niðurskurð og aukið álag vegna fjárskorts lögregluembættisins. Formaður Lögreglufélags Suðurnesja segir þungt hljóð vera í mönnum og býst að öllu óbreyttu við flótta úr starfsstéttinni. Frá þessu var greint í fréttum Stöðvar 2 nú í kvöld.

Í rekstraráætlun lögregluembættisins á Suðurnesjum fyrir þetta ár er gert ráð fyrir aukakostnaði upp á 200 milljónir umfram fjárheimildir.

Dómsmálaráðuneytið óskaði eftir skýringum frá embættinu vegna þessa og funduðu fulltrúar embættisins með ráðherra í morgun. Þar var meðal annars lögð fram ný rekstraráætlun með tillögum til lausna. Samkvæmt tilkynningu frá ráðuneytinu er málið nú í vinnuferli og hefur engin ákvörðun verið tekin og hefur annar fundur verið boðaður á morgun.

Lögreglumenn á Suðurnesjum eru uggandi yfir þróun mála enda ljóst að ef rekstaráætlun á að vera innan ramma fjárheimilda kemur til verulegs niðurskurðar. Það muni fyrst og fremst bitna á starfsmönnum enda séu laun og launatengdur kostnaður um 80 prósent af rekstrarkostnaði embættisins.

Jón Halldór Sigurðsson, formaður Lögreglufélags Suðurnesja, sagði í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 embættið vera nú þegar undirmannað og álag mikið á lögreglumenn. Framundan séu miklir annatímar meðal annars vegna aukinnar flugumferðar í sumar.

Hann segir fólk nú óttast uppsagnir og aukið álag og því séu sumir farnir að hugsa sér til hreyfings. Þá segir hann félagið lýsa yfir fullum stuðningi við lögreglustjóra Suðurnesja og hvetur ráðherra til að finna farsæla lausn á málinu sem allra fyrst.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024