Þú gefur styrk! – með Sparisjóðnum
Sparisjóðurinn hefur hafið átak meðal viðskiptavina sinna og landsmanna allra til styrktar ákveðnum verkefnum átta frjálsra félagasamtaka á sviði geðheilbrigðismála. Átakið sem er kallað Þú gefur styrk er nýstárlegt að því leyti að óskað er eftir þátttöku allra viðskiptavina Sparisjóðsins og getur hver um sig valið verkefni. Í kjölfarið leggur Sparisjóðurinn 1.000 krónur til þess verkefnis.
Talið er að fjórði hver Íslendingur eigi við geðræn vandamál að stríða einhvern tíma á ævinni, en með réttri meðhöndlun og stuðningi eru yfirgnæfandi líkur á því að fólk nái bata. Með því að velja eitt af þeim átta félögum geta viðskiptavinir tekið þátt í að bæta geðheilsu þjóðarinnar.
Markmiðið er að safna alls 25 milljónum króna til átta félagasamtaka en þau eru ADHD-samtökin, Forma, Geðhjálp, Hugarafl, Klúbburinn Geysir, Ný leið, Rauði kross Íslands og Spegillinn.
Með því að viðskiptavinir velji sjálfir hvert framlag þeirra fer er ætlunin að hvetja fólk til að kynna sér brýn og þörf verkefni í þessum geira og vekja í leiðinni athygli á fjölbreytni geðrænna vandamála.
Þá verður opnaður söfnunarsími þar sem landsmenn geta lagt sitt af mörkum og er símanúmerið 901-1000. Hvert símtal kostar þúsund krónur og dreifist sú upphæð jafnt á verkefnin átta.
Sparisjóðurinn í Keflavík hefur fylgt þessu átaki eftir með því að styrkja Björgina til næstu 3ja ára. Björgin er, eins og mörgum mun orðið kunnugt, athvarf fyrir fólk með geðraskanir og er staðsett í húsi Sjálfsbjargar við Fitjabraut 6c í Reykjanesbæ. Þangað kemur fólk á eigin forsendum, en Björgin er opin virka daga frá 10-16.
Björgin var formlega opnuð þann 4. febrúar 2005 og hefur fjöldi fastagesta margfaldast frá opnun. Í dag eru félagar um 30 talsins. Á Suðurnesjum búa nær 20 þúsund manns og hefur það sýnt sig að mikil þörf er á því úrræði fyrir geðsjúka í þessum landshluta sem og öðrum.
Björgin er ekki meðferðarstaður en hefur ákveðið meðferðarígildi og getur komið í veg fyrir félagslega einangrun, sem er mjög algeng meðal þeirra sem glíma við geðraskanir og þannig haft áhrif á bata þeirra. Starfsemin í Björginni er margþætt og mótast að miklu leiti af þeim sem þar dvelja hverju sinni. Áhersla er lögð á samstöðu og samstarf félaganna en það að tilheyra hópi og hitta aðra sem eru eða hafa gengið í gegnum svipaða reynslu er afar mikilvægt. Það er ánægjulegt að segja frá því að á síðan Björgin var opnuð, hafa þó nokkrir félagar náð bata og komist aftur út á vinnumarkaðinn.
Ragnheiður Sif Gunnarsdóttir, forstöðumaður Bjargarinnar, sagði við þetta tilefni að „Samfélagslegur stuðningur eins og sá sem Sparisjóðurinn í Keflavík sýnir með framlagi sínu er afar mikilvægur fyrir starfsemi Bjargarinnar, en einnig mikilvægur liður í að rjúfa fordóma. “
Þessa dagana snýst starfið í Björginni um undirbúning jólanna þar sem félagarnir hafa föndrað jólakort og margvíslegt skraut sem þau hygjast selja til fjáröflunar. Þess má geta að opið hús verður í Björginni laugardaginn 2. desember þar sem áhugasamir geta komið, kynnt sér starfið og keypt sér glæsileg jólakort eða aðrar handunnar vörur.
VF-mynd/Þorgils - Baldur Guðmundsson frá SpKef og Ragnheiður Sif Gunnarsdóttir, forstöðumaður Bjagarinnar