Þrumuguðinn Þór lendir með látum í Reykjanesbæ - mynd
Þrumuguðinn Þór kom með látum til Reykjanesbæjar í gærkvöldi. Hann hefur ekið vagni sínum um himinhvolfin um árþúsund en hefur nú tyllt sér niður á topp Kambs í Innri Njarðvík. Það voru þrumur og eldingar sem fylgdu komu Þórs í gærkvöldi, eins og sjá má á myndinni hér að ofan sem ljósmyndari Víkurfrétta, Hilmar Bragi, tók við lendingu vagnsins í gærkvöldi.
Listamennirnir Haukur Halldórsson og Sverrir Örn Sigurjónsson lánuðu verkið til Reykjanesbæjar og er það úr ryðfríu, spegilsléttu stáli sem tekur til sín öll litbrigði veðrahvolfanna. Þór heldur á hamrinum Mjölni og geithafrarnir Tanngnjóstir og Tanngrísnir draga vagninn.
Þess má geta að Þór gengur líka undir nafninu Ökuþór. Ekki er vitað hversu lengi Þór mun staldra við og eru landsmenn því hvattir til að heilsa upp á hann á meðan tími vinnst til.
Listamennirnir Haukur og Sverrir Örn ásamt Árna bæjarstjóra Reykjanesbæjar. Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson