Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar bjargi Gullfaxa frá glötun!
Mikil íslensk flugsöguleg verðmæti munu glatast í næstu viku þegar hafist verður handa við að rífa Gullfaxa, fyrstu þotu Íslendinga, í varahluti í Rosswell í Nýju-Mexíkó í Bandaríkjunum. Sunnudagsblað Morgunblaðsins fjallar um málið.
Ónafngreindir áhugamenn á Suðurnesjum um flugsögu Keflavíkurflugvallar hafa kastað fram þeirri hugmynd í pósti til Víkurfrétta, í kjölfar fréttar á mbl.is, að Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, KADECO, kaupi Gullfaxa heim til Íslands. Það sé mikilvægt að bjarga vélinni frá því að vera rifin. Þá hafi KADECO yfir að ráða húsnæði til að geyma vélina þar til henni yrði fundið endalegt hlutverk hér heima á Íslandi.
Þannig hafa aðilar á vegum flugsafnsins á Akureyri sýnt vélinni áhuga og áhugamenn um flugsöguna á Keflavíkurflugvelli vilja einnig fá þennan sögulega grip á safn hér á Suðurnesjum.
- sjá einnig vefsjónvarp Víkurfrétta hér á vf.is
Mynd: Gullfaxi, þegar hann kom síðast til Íslands í febrúar 2006. Ljósmynd: Páll Ketilsson