Þróunaráætlunin K64 hlýtur alþjóðleg skipulagsverðlaun
K64, þróunaráætlun Kadeco, vann til verðlauna í flokki samgönguverkefna The Plan Awards fyrir áramót. The Plan-verðlaunin eru alþjóðleg verðlaun á sviði arkítektúrs, innanhússhönnunar og borgarskipulags og eru veitt árlega. Flokkarnir eru tuttugu talsins og tilefningar á hverju ári ríflega eitt þúsund.
Meðal annarra verkefna sem tilnefnd voru í sama flokki og K64 má nefna stækkun flugstöðvarinnar í Riga, sem One Works hannaði, Elizabeth neðanjarðarlestarlínan í London eftir Grimshaw Architects og samgöngumiðstöð í Toronto sem hönnuð var af Arcadis IBI Group.
K64 þróunaráætlunin var unnin af alþjóðlegu teymi undir forystu hollenska arkítektafyrirtækisins KCAP, en í teyminu var m.a. íslenska stofan Kanon Arkítektar og VSÓ ráðgjöf. Þróunaráætlunin er heildstæð sýn á uppbyggingu í kringum Keflavíkurflugvöll á ákveðnum þróunarsvæðum sem saman mynda vistkerfi sem einkennist af samvinnu og sambúð iðnaðar, samgangna, nýsköpunar og sjálfbærrar byggðaþróunar.
„Keflavíkurflugvöllur er drifkraftur fyrir efnahags-, umhverfis- og samfélagslega sjálfbært svæði og mikilvægur við þróun byggðar á Suðurnesjum. Staðsetningin á milli Evrópu og Ameríku, nálægðin við höfuðborgarsvæðið, sveitarfélögin við völlinn og kostir íslensks samfélags eru ótvíræðir. Græn orka, sveigjanleiki og aðlögunar- og samstarfshæfni samfélagsins eru sömuleiðis mikilvægir þættir í því að skapa einstök tækifæri á svæðinu. Rík áhersla er lögð á að svæðið þróist í takt við samfélagið í kring,“ segir í frétt frá Kadeco.
Í umsögn dómnefndar The Plan Awards sagði meðal annars:
„Þetta er metnaðarfull áætlun og aðlaðandi framtíðarsýn fyrir Suðurnes, flugvöllinn og Ísland. Verkefnið er nálgast sem samþætt aðalskipulag sem sameinar flutninga, orku, iðnað, verslun og félagslegt skipulag, mun það auka fjölbreytni í hagkerfi svæðsins og auka vægi verðmætari geira. Fyrsta flokks íbúðahverfi og menningarrými styðja við þessi markmið. Skipulagið stuðlar að flugvallatengdri starfsemi og undirbýr svæðið undir vöxt með aðlaðandi íbúðabyggð, menntunarmöguleikum, fjölbreyttri menningu og þjónustu.“
Pálmi Freyr Randversson, framkvæmdastjóri Kadeco:
„Það er virkilega ánægjulegt að sjá K64 fá þessa viðurkenningu, sem verkefnið á svo sannarlega skilið. Mikil vinna fór í að búa til metnaðarfulla, en líka raunhæfa þróunaráætlun fyrir svæði sem að mínu mati er einstakt á Íslandi hvað varðar tækifæri til uppbyggingar. Þessi útkoma hefði ekki náðst nema fyrir það mikla samráð sem haft var við nærsamfélagið meðan á vinnunni stóð. Frá upphafi hefur okkur verið ljóst að framtíðarsýn sem þessa er ekki hægt að vinna nema í mjög nánu samráði og samvinnu við samfélagið. Þetta samstarf heldur nú áfram, því verkefni næstu ára og áratuga er að gera þessa spennandi framtíðarsýn að veruleika.“
Kadeco og KCAP-teymið.