Þrjú félög fengu styrk frá Geysi Green Energy
Geysir Green Energy veitti nýverið veglega styrki til góðra málefna í Reykjanesbæ í tilefni þess að fyrirtækið hóf nýlega starfsemi og setti upp höfuðstöðvar sínar í bæjarfélaginu.
Íþróttafélagið Nes, Blái Herinn og Knattspyrnudeild Keflavíkur fengu hvert um sig eina milljón króna og tóku fulltrúar þessara félaga formlega við framlögunum í gær á skrifstofu Geysis Green Energy.
Hið nýstofnaða fyrirtæki stefnir að því að fjárfesta fyrir 70 milljarða króna víða um heim í ýmsum verkefnum tengdum sjálfbærri orkuframleiðslu. Markmið Geysir Green Energy er m.a. að leita tækifæra í nýtingu jarðvarma og fjárfestingum í þróun og byggingu jarðvarmaorkuvera. Sem kunnugt er keypti félagið nýlega hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja.
Mynd:
Frá afhendingu styrkjanna í Geysi Green. Talið frá vinstri: Auður Nanna Baldvinsdóttir, Geysi Green, Lára Ingimundardóttir, Nesari, Tómas Knútsson, Bláa hernum, Rúnar V. Arnarson, formaður Knattspyrnudeildar Keflavíkur og Ásgeir Margeirsson, forstjóri Geysir Green Energy.
VF-mynd: elg