Þrjár landgöngubrýr endurnýjaðar
- við suðurbyggingu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar
Þrjár landgöngubrýr við suðurbyggingu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar verða endurnýjaðar í vetur. Það er spænska fyrirtækið Thyssen Krupp, framleiðandi búnna, sem mun sjá um verkið. Isavia hefur haft samning við fyrirtækið undanfarin þrjú ár en það hefur gert úttekt á öllum landgöngubrúm Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.
Eftir úttekt á brúnnum var ákveðið að gera upp þrjár af fimm á Suðurbyggingu flugstöðvarinnar. Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi flugstöðvarinnar, segir í samtali við Víkurfréttir að þær þrjár sem voru vest farnar verði gerðar upp í vetur en hinar tvær líklega seint á næsta ári.
„Ástandið var orðið mjög slæmt og þurfti að skipta út öllum stjórnbúnaði, köplum og hinum ýmsu hlutum brúna ásamt því að gera upp,“ segir Guðni.
Kostnaður við verkið er í heild upp á 90 milljónir króna. „Megnið af kostnaðnum fer í nýja varahluti. Stærsti kostnaðarhlutinn er endurnýjun á búnaði sem aðeins fæst hjá framleiðanda og vinna við að skipta búnaðnum út sem er mjög sérhæfð vinna sem fá fyrirtæki hafa reynslu af og engin íslensk“.
Guðni segir að t.d. sandblástur vera einungis lítill hluti af verkinu. „Við mátum að þar sem þetta væri það sérhæft væri ekki hægt að bjóða verkið út ásamt því að við gerum kröfu um að einungis séu notaðir original varahlutir í brýrnar sem er aðeins hægt að kaupa hjá framleiðanda. Að auki má nefna að landgöngubrýrnar hjá okkur eru með kröfu um 100% uppitíma og getum við ekki tekið neina áhættu varðandi verkefni sem þetta“.
Verktakinn, Thyssen Krupp, er að koma sér upp aðstöðu til að vinna að viðgerð brúnna í byggingu 885 á Keflavíkurflugvelli eða gamla stóra flugskýlinu. Það hús býður niðurrifs en af því eru greiddir fasteignaskattar og auk þess er sérstök trygging fyrir þá starfsemi sem er í húsinu. „Húsnæðið uppfyllir því öll skilyrði fyrir þessa starfsemi,“ segir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi í samtali við Víkurfréttir.
Landgöngubrýr eru flókin mannvirki sem mikið mæðir á. VF-myndir: Hilmar Bragi