Þristur gjöreyðilagðist í miklum eldi — myndskeið
Fiskiskipið Þristur ÍS gjöreyðilagðist í morgun þegar mikill eldur blossaði upp í skipinu þar sem það var bundið við bryggju í Sandgerðishöfn. Reykjarsúlan frá bálinu sást m.a. frá Innri-Njarðvík. Allir starfsmenn Brunavarna Suðurnesja voru kallaðir út í morgun til að ráðast gegn eldhafinu.
Fyrsta útkallið í Þrist ÍS kom um klukkan hálf tólf í gærkvöldi. Þá hafði komið upp eldur við rafmagnskapla í vélarrúmi. Sá eldur var fljótlega slökktur og töldu slökkviliðsmenn sig hafa slökkt allan eld.
Á sjöunda tímanum í morgun var svo aftur tilkynnt um reyk frá skipinu og fóru slökkviliðsmenn á staðinn og slökktu í þeim glæðum.
Klukkan níu í morgun blossaði svo upp mikið bál með kolsvörtum reyk og þá var skipið orðið alelda.
Um tíma var ekki talið þorandi að hafa slökkviliðsmenn um borð í skipinu þar sem það gæti sokkið á hverri stundu. Þá var yfirbygging úr áli einnig farið að bráðna niður í skipið.
Slökkvilið er ennþá á vettvangi þegar þetta er skrifað kl. 14 á sunnudegi.