Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miðvikudagur 12. janúar 2000 kl. 15:39

ÞRIGGJA MILLJARÐA ORKUVER GANGSETT

Orkuver 5, var tekið í notkun á 25 ára afmæli Hitaveitu Suðurnesja, sem haldið var hátíðlegt um síðustu helgi. Um er að ræða 30 megavatta raforkuvirkjun sem framleiðir raforku með gufuafli. Stöðvarhúsið er rúmlega þrjú þúsund fermetrar að flatarmáli og með tengibyggingu er það um fjögur þúsund fermetrar. Mannvirkið ásamt tengilögnum og búnaði kostar þrjá milljarða króna. Framkvæmdirnar gengu vel, þrátt fyrir nokkra seinkun, og kostnaður reyndist nærri upphaflegri áætlun. Framkvæmdum er ekki að fullu lokið en orkuverið verður kynnt betur þegar framkvæmdum lýkur á vormánuðum. Það voru fulltrúar ungu kynslóðarinnar, þau Viktoría Á. Halldórsdóttir frá Grindavík og Garðar Gíslason, úr Njarðvík, sem ræstu orkuverið við hátíðlega athöfn í Eldborg, kynningarhúsi Hitaveitu Suðurnesja í Svartsengi við Grindavík. Tónlistarflutningur og ávörp, ásamt heiðrunum voru áberandi í afmælisfagnaðinum og voru afmælisbarninu færðar margar kveðjur, enda hefur Hitaveitan lengi talsit til eins af óskabörnum Suðurnesja, þó fjórðungsaldargömul sé. Fyrirtækið er vel rekið og metið á átta milljarða króna en það er í eigu sveitarfélaganna á Suðurnesjum og ríkisins. á myndinni eru fulltrúar ungu kynslóðarinnar, þau Viktoría Á. Halldórsdóttir frá Grindavík og Garðar Gíslason, úr Njarðvík ræstu orkuverið. Hér eru þau að taka við viðurkenningarskjölum fyrir verkið frá þeim Alberti Albertssyni aðstoðarforstjóra og Júlíusi Jónssyni forstjóra Hitaveitunnar.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024