Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þriggja metra háir jólasveinapóstkassar
Guðmundur Rúnar Lúðvíksson listamaður og Kristján Halldórsson smiður hjá Atafli.
Föstudagur 19. apríl 2013 kl. 09:39

Þriggja metra háir jólasveinapóstkassar

Fjöllistamaðurinn Guðmundur R. Lúðvíksson ætlar að gera skemmtilega tilraun til að markaðssetja íslensku jólasveinana. Hann ætlar að freista þeirra fjölmörgu útlendinga sem koma til landsins og fá þá til að senda jólasveinunum bréf sem þeir eiga að skila í risavaxna póstkassa sem staðsettir verða víða um land.

„Mig langar að reyna að ná smá gjaldeyri út úr þessum tæplega 700 þúsund ferðamönnum sem koma til landsins á hverju ári. Ég ætla að koma fyrir fimm póstkössum sem eru 3 metrar á hæð, 1,50 m á breidd og tæpur metri á dýpt. Hugmyndin er að fólk sem setur bréf í kassann sjái inn í hann. Sérstakir söluaðilar í nágrenni kassanna sem verða tveir í Reykjavík, á Akureyri, við Geysi í Haukadal og á Reykjanesi, munu selja sérstök bréf sem fólk mun skrifa á til barna, ættingja eða vina. Ég ætla svo að fá skólakrakka í lið með mér og þau munu svara bréfunum sem við sendum svo á viðtakanda með lítilli gjöf sem tengist Íslandi. Skólakrakkarnir munu að sjálfsögðu frá greitt fyrir þeirra vinnu sem þarf að fara fram á haustmánuðum svo bréfin komist á áfangastað fyrir jól,“ segir Guðmundur sem hefur fengið margar ótrúlega skemmtilegar hugmyndir um ævina. Hann brosti breitt þegar hann var spurður að því hvort nú yrði hann ríkur ef þetta heppnaðist en sagði það ekki aðal málið. Gott væri ef fleiri nytu þess ef hugmyndin heppnaðist vel og það væri markmiðið.

Verktakafyrirtækið Atafl á Ásbrú smíðar kassana sem eru úr áli fyrir Guðmund en fleiri fyrirtæki á Suðurnesjum hafa aðstoðað kappann eins og Merkiprent og Plexigler. Kassarnir eru fallega rauðir eins og hinir hefðbundnu póstkassar hjá Íslandspósti sem mun síðan koma bréfunum á áfangastað. Guðmundur segist vanta fallegan og hentugan stað fyrir kassa á Suðurnesjum og biður um aðstoð við það mál.

„Ég vonast eftir góðri samvinnu við hönnuði eða sprotafyrirtæki í gerð hentugra gjafa. Þetta getur orðið ágætis vinna og búbót fyrir þann eða þá aðila. Ég vona líka að allir í jólasveinabransanum leggi höfuðið í bleyti og hjálpi til við að markaðssetja íslensku jólasveinana. Það sem er ólíkt hér og í öðrum löndum er þessi yndislega staðreynd að á Íslandi eru 13 jólasveinar og þeir eiga Grýlu og Leppalúða sem foreldra. Þeim útlendingum sem ég hef sagt frá því finnst það ótrúlega skemmtilegt.

Það hafa allir tekið mjög jákvætt í þetta sem ég hef leitað til og finnst málið skemmtilegt. Ég vil reyna að ná til 10% ferðamanna og ef það tekst þá munum við fá um 65 til 70 þúsund bréf. Þessir kassar munu vekja mikla athygli þar sem þeir verða og einnig vekja athygli á Íslandi. Það er ekki ólíklegt að margar ljósmyndir verði teknar við þá sem munu birtast á samfélagsmiðlunum og auglýsa þannig Ísland,“ sagði Guðmundur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024