Þriggja ára markmið Keilis náðist á fyrsta ári
Þriggja ára markmið háskólasamfélagsins Keilis á gamla varnarsvæðinu sem stofnað var í maí 2007 náðist á átta mánuðum. Fjárhagslegur rekstur gekk mun betur en áætlað var og var tap eftir fyrsta árið 36 millj. kr. sem var mun minna en gert var ráð fyrir.
Þetta kom fram á aðalfundi Keilis í gær en þar kom m.a. fram að fyrsta árið komu 600 umsóknir um þær 300 íbúðir sem teknar voru í notkun í upphafi. Þeim var fjölgað um 150 um áramótin og voru íbúar þá um 1100. Í ágúst er gert ráð fyrir að 1600 manns á vegum Keilis verði búsettir í gömlu herstöðinni.
Runólfur Ágústsson, framkvæmdastjóri Keilis sagði að næsta haust yrði boðið upp á nýjar greinar eins og frumkvöðlanám. Nú þegar hafa verið samþykktar 70 nýjar umsóknir af 150 sem hafa borist í frumgreinanámið sem nefnist Háskólabrú. Er búist við að umsóknir verði um 240 í þau 120 lausu sæti sem í boði verða eða tvær umsóknir um hvert sæti. Heildar nememdafjöldi í haust verður 350 í fimm skólum á vegum Keilis.
Á fyrsta starfsárinu var opnaður leikskóli og barnaskólanám 1.-4. bekkjar undir merkjum Hjallastefnunnar og næsta haust verður grunnskólastarf aukið undir merkjum Reykjanesbæjar. Þá er rekið alvöru íþróttahús með margvíslegri starfsemi innanhúss.
Ný stjórn var kjörin og urðu engar breytingar á henni. Hluthafar lýstu yfir mikilli ánægju með árangurinn á fyrsta starfsári. Stjórnarformaður er Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ.