Fréttir

Þriðjungi hærri laun í Auðlindagarðinum en á landsvísu
Föstudagur 27. nóvember 2015 kl. 06:00

Þriðjungi hærri laun í Auðlindagarðinum en á landsvísu

-Starfsemi Auðlindagarðsins á Reykjanesi vekur mikla athygli og verður m.a. kynnt á loftslagsráðstefnu í París í desember

Atvinnutekjur eru að jafnaði um 30% hærri í Auðlindagarðinum á Reykjanesi en á landsvísu. Þær eru um 540 þús. kr. en meðalmánaðarlaun á landsvísu hjá 16 ára og eldri eru um 390 þús. kr. Meðaltekjur á Suðurnesjum eru aðeins hærri en landsmeðaltalið eða 406 þús. kr. Hér er tekið mið af launum fólks í störfum en ekki af tekjum vegna atvinnuleysis eða frá lífeyrissjóði. Þetta kemur fram í skýrslu GAMMA ráðgjafar en hún fjallar um efnahagsleg áhrif Auðlindagarðsins á Reykjanesi.

Í Auðlindagarðinum er þyrping fyrirtækja sem byggja framleiðslu sína á samnýtingu jarðvarma frá tveimur orkuverum HS Orku en það er stærsta fyrirtækið í garðinum en litlu minni eru Bláa lónið og HS Veitur. Nærri 600 manns vinna hjá fyrirtækjum innan Auðlindagarðsins. Fyrirhuguð fjárfesting hjá þeim á næstu 2 til 5 árum nema 20 til 25 milljörðum króna í veglegum uppbyggingaráformum.

Public deli
Public deli

Starfsemi Auðindagarðsins hefur vakið mikla athygli en hún verður m.a. kynnt á loftslagsráðstefnu í París í desember. Markmið Auðlindagarðsins er „Samfélag án sóunar“ það er að nýta beri alla þá auðlindastrauma sem streyma inn í og frá fyrirtækjum garðsins til fulls og á sem ábyrgastan hátt, samfélaginu til framþróunar og heilla. Fyrirtæki Auðlindagarðsins nýta hvert um sig með beinum hætti tvo eða fleiri auðlindastrauma frá jarðvarmaverum HS Orku og verða því af augljósum ástæðum að vera staðsett á Suðurnesjum í grennd við jarðvarmaverin. Starfsemi Auðlindagarðsins hefur byggst upp á sameiginlegum hagsmunum fyrirtækjanna, þ.e. affall eins er hráefni fyrir annan, nálægðinni og nánu þverfaglegu samstarfi. Þannig endurnýtir eitt nýjasta fyrirtækið í Auðlindagarðinum, fiskeldið Stolt Seafarm, sjó sem hefur verið notaður til kælingar á túrbínum Reykjanesvirkjunar, til ræktunar á einum verðmætasta fiski sem framleiddur er á Íslandi.

Auðlindagarðurinn er hugmynd Alberts Albertssonar, verkfræðings og fyrrverandi aðstoðarforstjóra Hitaveitu Suðurnesja og núverandi hugmyndasmiðs hjá HS Orku, en hann hefur sagt að kveikjan hafi verið þegar fólk fór að baða sig í heitum vökvanum frá orkuverinu í Svartsengi. Það varð fyrsti vísir að Bláa lóninu sem er næst stæsta fyrirtækið í garðinum en veitir um rúmlega helming starfa innan hans. Orkuverið í Svartsengi var fyrsta stóra verkefni Hitaveitu Suðurnesja sem sveitarfélögin á Suðurnesjum stóðu saman að stofnun í samvinnu við ríkið fyrir fjórum áratugum síðan.