Þriðji hver íbúi af erlendum uppruna
Því fylgi miklar áskoranir og heimamenn þurfi einnig að aðlagast að nýjum íbúum og þeirra siðum.
Hlutfall íbúa af erlendum uppruna í Reykjanesbæ hefur hækkað og er nú orðið 29%. Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri kom inn á í nýársræðu sinni mikla íbúafjölgun í bæjarfélaginu á síðustu átta árum en hún nemur 46%. Því fylgi miklar áskoranir og heimamenn þurfi einnig að aðlagast að nýjum íbúum og þeirra siðum annars sé hætta á menningarlegum átökum og samfélagið skiptist í hópa og fylkingar.
„Hlutfall íbúa af erlendum uppruna er nú um 29% í Reykjanesbæ, með um 100 mismunandi ríkisföng og yfir 30 tungumál töluð í leik- og grunnskólum sveitarfélagins. Þessu fylgja eðliega ýmsar áskoranir bæði fyrir starfsmenn og íbúa en þetta er ekki einsdæmi á Íslandi. Íslensk stjórnvöld og mörg önnur sveitarfélög leita nú leiða til að nýjum íbúum af erlendum uppruna gangi betur að aðlagast íslensku samfélagi.
Sagt er að sagan endurtaki sig. Íbúum Reykjanesbæjar hefur fjölgað mikið síðustu ár og ekkert sem bendir til annars en að sú þróun haldi áfram. Það gerðist einnig um miðja síðustu öld þegar íbúum fjölgaði gríðarlega í kjölfar komu hersins og mikillar uppbyggingar á Keflavíkurflugvelli. Um þetta má m.a. lesa í bráðskemmtilegri Sögu Keflavíkur sem kom út á nýliðnu ári og spannar tímabilið frá 1949 til 1994.
Íbúafjölgun í Reykjanesbæ síðustu ár verið mun meiri en gengur og gerist annars staðar á Íslandi. Þegar ég hóf störf sem bæjarstjóri, fyrir rúmum 8 árum þ. 1. sep. 2014, voru íbúar rúmlega 14 þúsund talsins. Um það bil ári síðar kom að því að fagna skyldi 15 þúsundasta íbúanum og reyndist það vera þriðja barn ungra, pólskra hjóna sem höfðu þá búið hér í nokkur ár.
Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og íbúum fjölgað um 7 þúsund eða 46% og erum telja nú rétt tæplega 22 þúsund. Að jafnaði hefur íbúum því fjölgað um 5% á ári á þessum tíma sem er margfalt meira en gengur og gerist annars staðar á Íslandi.
En hvaða fólk er þetta og hvers vegna flykkist það til okkar nú? Með mikilli einföldun má skipta þessum hópi í þrennt.
Í fyrsta lagi íslenskir ríkisborgarar sem flytja hingað annars staðar frá af landinu vegna vinnu, hagstæðs fasteignaverðs eða annarra ástæðna.
Í öðru lagi erlendir ríkisborgarar, mikil meirihluti frá Póllandi, sem flytja hingað til að vinna, langflestir í tengslum við Keflavíkurflugvöll.
Í þriðja lagi flóttafólk sem hefur fengið alþjóðlega vernd og ákveður í framhaldi að setjast að í Reykjanesbæ.
En það er ekki nóg. Við heimamenn þurfum einnig að aðlaga okkur að þeim og þeirra siðum. Að breyttum veruleika. Annars er hætt við menningarlegum átökum og að samfélagið skiptist í hópa og fylkingar í stað þess að vera ein samfelld og öflug heild,“ sagði bæjarstjórinn. Ávarp hans í heild má sjá á Facebook síðu hans.