Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Þriðja árið í röð skilar bæjarsjóður rekstrarafgangi
Miðvikudagur 15. maí 2013 kl. 07:46

Þriðja árið í röð skilar bæjarsjóður rekstrarafgangi

Ársreikningar Reykjanesbæjar 2012 samþykktir í bæjarstjórn.

Ársreikningar Reykjanesbæjar fyrir árið 2012 voru samþykktir á bæjarstjórnarfundi í sl. viku. Þriðja árið í röð skilar bæjarsjóður rekstrarafgangi.

Þessi jákvæða niðurstaða er fyrst og fremst að þakka mjög öflugu starfsfólki sem tekst að veita góða þjónustu með litlum tilkostnaði, segir í bókun meirihluta Sjálfstæðismanna í bæjastjórn.

Þar segir jafnframt: „Tekist hefur að lækka skuldir og skuldbindingar um þrjá og hálfan milljarð  um leið og eiginfjárhlutfall, sem mælir eignir á móti skuldum vex úr 20,7% í 25%. Engin erlend lán hvíla á Reykjanesbæ og engin ný lán voru tekin fyrir bæjarsjóð. Hreint veltufé frá rekstri er um 358 milljónir króna. Handbært fé frá rekstri er um 300 milljónir króna. Veltufjárhlutfall er 1,04.

Samstæðureikningurinn er Reykjanesbæ áfram erfiður vegna Helguvíkurhafnar, þótt hann skili sterkri stöðu fyrir afskriftir og fjármagnsliði og árangur sé betri en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Það er afar leitt að þegar sameiginlegt átak í rekstri leiðir til góðrar niðurstöðu þurfi flokkapólitík að gera tilraun til að gera lítið úr slíkum árangri með ósannindum eins og kom fram við fyrri umræðu um ársreikning Reykjanesbæjar. Kristinn Jakobsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins  hélt því fram að samkvæmt reikningnum vanti 800 milljónir kr. til að brúa bilið fyrir árið 2013. Þetta er alrangt  þar sem hreint veltufé frá rekstri áranna 2012 og  2013 er hærra en næsta árs afborganir langtímaskulda, að teknu til næsta árs skuldabréfaeignar.  Þar munar 289 milljónum kr. árið 2012 og 85 milljónum kr. árið 2013.

Þá hélt Friðjón Einarsson oddviti Samfylkingarinnar því fram að jákvæð niðurstaða á bæjarsjóði byggði á sölu eigna. Án þess væri taprekstur. Þetta er einnig alrangt. Hagnaður bæjarsjóðs fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam 888 milljónum kr. og sala eigna hefur engin áhrif á þá þætti. Áhrif af sölu skuldabréfaeignar  á fjármagnsliði í ársreikningi  eru 143 m.kr og hefðu því augljóslega ekki snúið 708 milljón kr. rekstrarafgangi í neikvæða stöðu. Með sölu eigna voru erlendar skuldir greiddar upp en um leið hefur tekist að auka eiginfjárhlutfall bæjarsjóðs.

Ítrekað skal að um leið og atvinnuverkefni taka við sér í Helguvík styrkist staða íbúa og þar með bæjarsjóðs umtalsvert, líkt og dæmin sanna þar sem slík verkefni hafa hlotið brautargengi.“

Árni Sigfússon, Björk Þorsteinsdóttir, Gunnar Þórarinsson, Magnea Guðmundsdóttir, Einar Þ. Magnússon, Baldur Þ. Guðmundsson, Böðvar Jónsson.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024