Þrettán hjúkrunarfræðingar hafa sagt upp
Þrettán hjúkrunarfræðingar hafa sagt upp við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Þeir koma frá sjúkradeildinni, heimahjúkrun, skólaheilsugæslu og svo slysa- og bráðamóttöku.
„Flestir sem sögðu upp eru að vinna á slysa-og bráðamóttöku. Ef uppsagnir ganga eftir mun það koma verst niður á slysa-og bráðamóttöku því eftir verða aðeins deildarstjórinn og hjúkrunarfræðingur í 40 % stöðugildi. Það þýðir að það verður aðeins einn hjúkrunarfræðingur á deildinni í almennri móttöku og eingöngu á virkum dögum,“ segir Þórunn Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á HSS.
„Í dag erum við með tvo hjúkrunarfræðinga á morgunvakt alla virka daga, tvo hjúkrunarfræðinga á kvöldvakt, annar til kl 20:00, hinn er til kl 23:30. Um helgar er einn hjúkrunarfræðingur á vakt frá kl 11:00-19:00. Það segir sig sjálft að þjónustustigið mun lækka verulega. Varðandi sjúkradeildina þá munum við þurfa að endurskoða starfsemina ef uppsagnir ganga ekki til baka og við fáum ekki aðra hjúkrunarfræðinga í stað þeirra. Sama má segja um heimahjúkrun,“ segir Þórunn.
Sjá einnig hér: Hjúkrunarfræðingar á HSS segja upp