Þrennt slasaðist í hörðum árekstri
Mjög harður árekstur varð við gatnamót Njarðvíkurbrautar og Sjávarvegar í Reykjanesbæ er tveir bílar, jeppi og fólksbíll, skullu saman um hádegið í dag. Þrennt var flutt með tveimur sjúkrabílum á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til aðhlynningar. Að sögn lögreglu er ekki vitað um meiðsli hinna slösuðu á þessari stundu. Talið er að sólin hafi blindað annan ökumanninn.
Báðir bílarnir skemmdust mikið og varð að fjarlægja þá af vettvangi með kranabíl.
Mynd/Víkurfréttir: Áreksturinn var mjög harður og bílarnir báðir mikið skemmdir.