Þrennt sem vinnst með því að starfsfólk geti flutt til Grindavíkur sem fyrst
Fyrirtækin í Grindavík eru eitt af öðru að hefja starfsemi, sjávarútvegsfyrirtækið Vísir hf. byrjaði á mánudag í síðustu viku þegar saltfiski var pakkað og vinnsla á ferskum fiski hófst svo á fimmtudaginn. Pétur Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis var staddur í Grindavík þegar blaðamaður tók stöðuna en Pétur vill að yfirvöld bjóði þeim sem geta, að flytjast til Grindavíkur sem fyrst.
„Við vorum búnir að flytja afurðir sem átti eftir að pakka til Þorlákshafnar en fluttum það svo til Grindavíkur í byrjun síðustu viku og pökkuðum þar. Þegar viðverutíminn hjá fyrirtækjum var svo lengdur til kl. níu á kvöldin, gátum við hafið vinnslu á ferskum fiski en við gátum ekki byrjað fyrr á meðan við þurftum að vera búnir að yfirgefa húsnæðið kl. fimm því þrifin þar taka það langan tíma. Það tekur nokkrar klukkustundir að þrífa vélarnar og húsnæðið svo í dag erum við með vinnslu frá átta til þrjú og þriffólkið getur svo klárað þrifin fyrir kl. níu á kvöldin. Það hafa um 50 manns verið að vinna sem er u.þ.b. þriðjungur alls vinnuafls okkar en á morgun verður fyrsta löndunin í Grindavík þegar Fjölnir kemur í land. Það var gott að geta byrjað svona en þetta gengur ekki svona upp til lengdar. Bara á fimmtudaginn erum við í vandræðum með að koma mannskapnum til Grindavíkur vegna veðurs og ég vona að yfirvöld muni slaka á þessum kröfum. Að mínu mati eiga þeir sem eru ekki með börn, að geta flutt sem fyrst til Grindavíkur því það er þrennt sem vinnst með því. Þá mun húsnæði losna utan Grindavíkur en í dag eru um 100 fjölskyldur án heimilis. Það eykur á öryggi þess starfsfólks sem vinnur í Grindavík, að þurfa ekki að keyra yfir erfiðustu vetrarmánuðina til og frá Grindavík og þriðja atriðið er að þá fá fyrirtækin það púst sem þarf til að halda uppi öflugu atvinnulífi. Ég trúi ekki öðru en yfirvöld muni koma til móts við okkur að þessu leyti svo fremi sem öryggisþættimum sé ekki ógnað um of,“ sagði Pétur að lokum.