Þrennt flutt á slysadeild eftir árekstur í Njarðvík
Þrennt var flutt á slysadeild Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja eftir árekstur á Njarðarbraut í Njarðvík á tólfta tímanum í morgun. Að sögn lögreglu vildi óhappið þannig til að einn bíll ók aftan á annan og sá þriðji þar aftan á.
Meiðsli fólksins sem slasaðist í árekstrinum voru minni háttar en vissara þótti að senda það á sjúkrahús til skoðunar. Lögregla segir gáleysi um að kenna en áreksturinn var það harður að draga þurfti alla bílana af vettvangi með dráttarbíl.
VF-mynd/elg - Frá vettvangi í morgun.