Þrennir tónleikar á nýju ári
-Söngvaskáld á Suðurnesjum í Hljómahöll
Tónleikaröðin Söngvaskáld á Suðurnesjum heldur áfram á nýju ári og verður boðið upp á þrenna tónleika í febrúar, mars og apríl þar sem fjallað verður um söngvaskáld og tónlistararf Suðurnesja í tali og tónum.
Tónleikarnir verða haldnir í Bergi í Hljómahöll þar sem kynnt verður sagan á bak við tónlistina í heimilislegri stofustemmningu. Kynnir og handritshöfundur er Dagný Gísladóttir, söngvari er Elmar Þór Hauksson og útsetningar og píanóleikur er í höndum Arnórs B. Vilbergssonar sem nýverið hlaut Menningarverðlaun Reykjanesbæjar.
Að sögn Dagnýjar var ekki annað hægt en að halda áfram með verkefnið þar sem uppselt var á alla tónleika raðarinnar á síðasta ári og bæta þurfti við aukatónleikum. „Við ákváðum að prófa þetta og sjá hvernig undirtektir yrðu og það er óhætt að segja að þær hafi verið umfram væntingar og það var skorað á okkur að halda áfram – sem er okkur bæði ljúft og skylt.“
Söngvaskáldin að þessu sinni verða Ingibjörg Þorbergs, Þorsteinn Eggertsson og Magnús Þór Sigmundsson og eru æfingar þegar hafnar fyrir fyrstu tónleika raðarinnar sem helgaðir verða Ingibjörgu.
„Við erum mjög spennt fyrir söngvaskáldunum okkar að þessu sinni og það er gaman að geta bætt konu í hópinn en þess má geta að Ingibjörg nær þeim merka áfanga að verða níræð á árinu. Þorsteinn er konungur lagatextanna svo þar er úr miklum fjölda laga að velja og okkur þótti við hæfi að fjalla nú um hinn hluta tvíeykisins og Njarðvíkinginn, Magnús Þór. Svo er bara að sjá hvernig Suðurnesjamönnum líkar,“ sagði Dagný að lokum en miðasala er hafin á hljomaholl.is og er miðaverð kr. 3.400.
Frá tónleikum um Villa Vill 2016