Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þrenn slagsmál á Suðurnesjum um helgina
Mánudagur 5. maí 2003 kl. 15:01

Þrenn slagsmál á Suðurnesjum um helgina

Í hádeginu á föstudag var tilkynnt um umferðaróhapp á Njarðarbraut í Njarðvík en 6 metra rör hafði losnað af þaki bifreiðar með þeim afleiðingum að rörið lenti framan á bifreið sem var að koma úr gagnstæðri átt. Einnig var tilkynnt um umferðaróhapp á Garðvegi þar sem möl fauk af malarflutningabíll á fólksbifreið með þeim afleiðingum að lakk og framrúða bifreiðarinnar skemmdust.

Um helgina þurfti lögreglumenn í Keflavík að hafa afskipti af nokkrum samkvæmum þar sem nágranna kvörtuðu yfir hávaða. Eins og síðustu daga voru nokkrir ökumenn kærðir fyrir of hraðann akstur á Suðurnesjum. Á laugardagsmorgun var tilkynnt um skemmdarverk í Keflavík en krikketkúlu hafði verið kastað inn um afturrúðu á Toyota Land Cruiser jeppa.

Aðfararnótt sunnudagsins var tilkynnt um slagsmál á veitingastað í Keflavík, en einnig var tvisvar sinnum tilkynnt um slagsmál í heimahúsum.


Dagbók Lögreglunnar í Keflavík
Föstudagurinn 2. maí

Kl. 12:05 var tilkynnt um umferðaróhapp á Njarðarbraut í Njarðvík. Þar hafði 6 metra langt rör losnað af þaki bifreiðar og lenti rörið framan á bifreið sem kom úr gagnstæðri átt. Skemmdir urðu minniháttar.

Kl. 13:15 var tilkynnt um umferðaróhapp á Garðvegi. Þar hafði malarflutningabíll verið að mæta fólskbifreið og fauk möl yfir fólksbifreiðina og urðu á henni lakkskemmdir og skemmdir á framrúðu. Ekki var notuð yfirbreiðsla yfir malarfarminum.

Einn maður gistir fangageymslu en hann var ofurölvi og hafði verið gestkomandi í húsi í Njarðvík. Hafði húsráðandi óskað eftir því að hann yrði fjarlægður.

Á kvöldvaktinni voru tveir ökumenn kærðir fyrir hraðakstur á Reykjanesbraut. Mældur hraði var 114km og 111km þar sem hámarkshraði er 90km. Einn var kærður fyrir hraðakstur á Grindavíkurvegi. Mældur hraði 107km þar sme hámarkshraði er 70km.

Kl. 21:45 voru ökumenn 12 bifreiða kærðir fyrir ólöglega lagningu bifreið sinna í nágrenni við Stapann í Njarðvík.

Laugardagurinn 3. maí

Kl. 01:45 var tilkynnt um bílveltu og slys á fólki á Reykjanesbraut nálægt Vogavegi. Lögregla og sjúkralið fór á staðinn. Fjórir aðilar voru fluttir á slysadeild í Reykjavík þar af einn alvarlega slasaður. Ekki er vitað um tildrög óhappsins en bifreiðinni hafði verið ekið eftir Reykjanesbraut áleiðis til Keflavíkur. Bifreiðin er gjörónýt eftir óhappið.

Á nætuvaktinni var einn ökumaður kærður fyrir hraðakstur á Sandgerðisvegi. Mældur hraði 116km þar sem hámarkshraði er 90km.

Í tvígang þurftu lögreglumenn að hafa afskipti af samkvæmi þar sem nágrannar kvörtuðu undan hávaða.

Kl. 07:20 var tilkynnt um rúðubrot í húsnæði S.B.K. í Grófinni. Hafði verið brotin þarna rúða í útihurð.

Kl. 09:55 var tilkynnt um skemmdarverk á bifreið við Bjarnarvelli í Keflavík. Þarna hafði afturrúða verið brotin í Toyota Land Cruiser bifreið með því að henda í gegnum hana trébolta (krikketkúlu). Mun það hafa gerst á milli kl. 05:30 og 06:00 í morgun.

Eitt minniháttar umferðaróhapp varð í dag á bifreiðastæði við verslunina Bónus.

Tveir ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur, annar á Reykjanesbraut og hinn á Grindavíkurvegi. Sá sem hraðar ók var á 125 km. hraða.

Sunnudagur 4. maí
Skömmu eftir miðnætti var tvisvar tilkynnt um ónæði í heimahúsum. Lögregla bað húsráðendur um að lækka og var farið eftir þeim fyrirmælum.

Kl. 02:06 var tilkynnt um slagsmál á veitingastað í Keflavík. Þarna hafði komið til handalögmála. Lögregla ók einum aðila á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þar sem læknir skoðaði hann frekar. Um minniháttar meiðsli var þó að ræða.

Kl. 04:03 var tilkynnt um slagsmál og ólæti við veitingastað í Sandgerði. Þau slagsmál leystust þó fljótlega upp og ók lögregla einum aðila heim.

Kl. 04:39 var tilkynnt um ólæti og slagsmál í heimahúsi í Garði. Þarna hafði komið upp ósætti milli íbúa og hafði einn hlotið bólgu við auga. Lögregla þurfti tvívegis að fara á staðinn en niðurstaðan varð sú að einn aðili var handtekinn og færður á lögreglustöðina i Keflavík.

Kl. 15:50 var tilkynnt um þjófnað á seðlaveski í kaffistofu verslunarinnar Sparkaup í gær á milli kl. 16:00 og 22:00. Hafði veskið verið tekið úr tösku einnar starfsstúlkunnar en í veskinu voru kr. 3000.- í peningum og debetkort. Einnig var farið í veski annarrar starfsstúlku en í því voru engin verðmæti.

Kl. 17:08 hringdi stúlka og óskaði aðstoðar vegna geitungs sem kominn var inn í stofu hjá henni. Fóru lögr.m. á staðinn og losuðu stúlkuna við hinn óboðna gest sem reyndist vera hunangsfluga.

Eitt minniháttar umferðaróhapp varð í dag og einn ökumaður kærður fyrir of hraðan akstur á Grindavíkurvegi. Mældist hann á 116 km. hraða.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024