Þráinn framkvæmdastjóri Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur
Þráinn Jónsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur. Hann er 45 ára gamall, kvæntur og þriggja barna faðir. Hann var verkstæðisformaður hjá Þormóði Ramma í Þorlákshöfn og fyrirrennurum þess í 25 ár. Þar sá hann um viðhald og viðgerðir á skipum félagsins. Hann hefur síðustu misseri unnið hjá Bæti í Reykjavík sem sérhæfir sig í viðgerðum skipavéla.
Stefán Sigurðsson, fráfarandi framkvæmdastjóri, hefur nú selt umtalsverðan hluta af hlutafé sínu til félaganna Gránu ehf og Royal Iceland hf. Stefán tekur nú sæti í stjórn og sér um fjármál og bókhald. Jón Pálsson skipatæknifræðingur mun láta af störfum um næstu áramót en vera áfram í sérverkefnum hjá félaginu. Í stjórn félagsins sitja nú Lúðvík Börkur Jónsson, Stefán Sigurðsson og Steinþór Ólafsson.