Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þrælanýlenda í Sandvík?
Þriðjudagur 2. ágúst 2005 kl. 17:07

Þrælanýlenda í Sandvík?

Tugir Suðurnesjamanna og hundruð Íslendinga eru ótryggðir með um tvöhundruð krónur á tímann fyrir leik sinni í kvikmyndinni Flags of Our Fathers sem verður tekinn upp hér á landi innan fárra daga. Verkalýðsforkólfar og aðrir sem tengjast kjarasamningum og samningsgerð segja verksamning sem ungmenni hafa undirritað fráleiddann og ekki í takt við það mætti teljast eðlilegt.

Þeir sem taka að sér aukahlutverk í þessari mynd eru með samninginum verktakar og þurfa þá að haga sér sem slíkir hvað varðar uppgjör á launum og öðru. Samkvæmt heimildum Víkurfrétta eru íslenskir aukaleikarar í myndinni með um 5000 kr.- á dag fyrir um 12 tíma vinnu. Þau fá þann pening greiddan vikulega en af honum þurfa aukaleikararnir að greiða sjálf mótframlag vinnuveitenda í lífeyrissjóð, tryggingagjald, staðgreiðslu ásamt slysatryggingu vegna þess að samningurinn býður ekki upp á neina tryggingu. Ef reiknað er saman það sem aukaleikararnir þurfa að greiða kemur í ljós að þau eru ekki með nema um tvöhundruð krónur á tímann.

Borga tvær milljónir ef þau tapa leikmunum

Í samningum kemur fram að þeir sem leika í myndinni starfa að verki sínu algjörlega á eigin ábyrgð þ.e. Eskimo Group ehf. er ekki ábyrgt fyrir líkams- eða heilsutjóni og/eða fjárhagstjóni sem undirritaður kann að verða fyrir við verk sitt. Það þýðir að ef aukaleikari slasar sig við gerð myndarinnar þá getur hann ekki undir neinum kringumstæðum sótt bætur til Eskimo Group ehf. eða þeirra sem standa að gerð myndarinnar.

Aukaleikararnir taka einnig á sig töluverða ábyrgð en allir leikmunir sem eru vopn og fylgihlutir eru í þeirra ábyrgð frá því þau fá þá í hendurnar og þar til leikmunaverðir taka við þeim aftur. Ef þau ekki skila þessum leikmunum þá fer fram lögreglurannsókn og aukaleikararnir rukkaðir um tvær milljónir íslenskra króna. Í samninginum er ekki rætt um verðmat á hverjum og einum leikmun sem þýðir að allir leikmunir eru metnir á tvær milljónir íslenskra króna.

Lúalegar aðferðir við að ráða ungt fólk

Guðbrandur Einarsson, hjá Verslunarmannafélagi Suðurnesja, sagði í samtali við Víkurfréttir að þetta væru lúalegir aðferðir við að ráða ungt fólk í vinnu.

„Krakkarnir þurfa að sjá um staðgreiðslu og annað á launum sínum sjálf og svo standa þessir krakkar uppi í árslok og átta sig ekki á því að það þurfi að standa skil á hinum og þessum greiðslum. Síðan lenda þau bara í álagningu þegar skattskráin kemur. Með fullum vöxtum frá ríkinu. Börn og unglingar gera sér bara ekki grein fyrir slíku umfangi þegar það ræður sig í vinnu af þessu tagi.“

Gissur Pétursson hjá Vinnumálastofnun Ríkisins segir þennan samning fráleiddan og biður alla þá sem hafa skrifað undir þennan samning að leita eindregið til síns stéttarfélags. „Það er leiðinlegt fyrir fólk sem er að kynnast vinnumarkaðnum að þetta sé þeirra fyrsta reynsla.“

Algjörlega einhliða samningur

Halldór Grönvald hjá ASÍ segir þennan samning algjörlega einhliða og að hann sé settur upp að hálfu verkkaupans og byggir algjörlega á hans hagsmunum og sýnilega til þess gerður að lágmarka allan kostnað. „Hann er settur upp til að lágmarka kostnað eins og launakostnað í þessu tilfelli og hinsvegar fría þetta fyrirtæki undir allri þeirri áhættu sem kann að felast í því að ráða þetta fólk til starfa t.d. tryggingar.“

Hann ráðleggur öllum frá því að undirgangast svona samningskjör: „Þau eru engum bjóðandi og ef um er að ræða ungmenni þá er þarna verið að skapa fólki einhver kjör og starfsaðstæður sem eru langt frá því að geta talist sanngjörn eða eðlileg í samræmi við það sem almennt gildir.

„Okkar aðildarfélög myndu örugglega gera sitt til þess að aðstoða fólk sem lendir í þessum samningum en við myndum fyrst og fremst ráða fólki frá því að gera svona samning.“

Hann segir einnig að ef einhver aðili myndi slasast við þessa vinnu eins og aðra þá myndi hann benda þeim á að kanna og þess vegna ganga mjög langt í því að fá sitt bætt gagnvart þessum atvinnurekendum sínum.

[email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024