Þorvaldur spyr: Erum við á leiðinni í gos?
„Það er eins og hægst hafi á landrisinu og dregið úr skjálftavirkninni - er þetta lognið á undan storminum? Erum við á leiðinni í gos?,“ skrifar Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði, á Facebook-síðu rannsóknareiningar í eldfjallafræði og náttúruvá hjá Háskóla Íslands.
Kvikuhlaups og eldgoss í Sundhnúkagígaröðinni hefur verið beðið frá því síðasta eldgosi á svæðinu lauk þann 9. maí sl. Nú hafa yfir 17 milljónir rúmmetra af kviku bæst í kvikuhólfið undir Svartsengi frá því síðast hófst gos, þann 16. mars.
Þessar 17 milljónir rúmmetra eru mesta magn sem safnast hefur upp á svæðinu síðan hamfarirnar urðu í Grindavík 10. nóvember í fyrra.