Þorsteinn lætur af störfum hjá Keflavík
Þorsteinn Magnússon framkvæmdastjóri Knattspyrnudeildar Keflavíkur hefur ákveðið að láta af störfum eftir átta ára starf sem framkvæmdastjóri og formaður Knattspyrnudeildar Keflavíkur. Þorsteinn var kjörinn formaður knattspyrnudeildar 14. febrúar 2008 og hefur starfað óslitið fyrir knattspyrnudeildina síðan. Fram til ársins 2008 tók Þorsteinn einnig þátt í starfi félagsins með ýmsum hætti og fékk nýverið 15 ára gullmerki fyrir stjórnarsetu í knattspyrnudeildinni. Frá þessu er greint á heimasíðu Keflavíkur.
Þorsteinn og Knattpyrnudeild Keflavíkur hafa náð samkomulagi um starfslok Þorsteins og mun hann vera knattspyrnudeildinni innan handar þar til nýr framkvæmdastjóri tekur til starfa og aðstoða viðkomandi við að kynna sér starfsemi deildarinnar. Knattspyrnudeildin þakkar Þorsteini fyrir sitt framlag til knattspyrnunnar og óskar Þorsteini velfarnaðar á nýjum vettvangi.