Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þorrablótsnefnd UMFG hlaut menningarverðlaun Grindavíkurbæjar 2023
Miðvikudagur 19. apríl 2023 kl. 09:30

Þorrablótsnefnd UMFG hlaut menningarverðlaun Grindavíkurbæjar 2023

Menningarverðlaun Grindavíkurbæjar voru afhent í vikunni. Í ár voru verðlaunin afhent þorrablótsnefnd UMFG. Frístunda- og menningarnefnd horfði í mati sínu til þess mikla árangurs sem nefndin hefur náð frá því þorrablót UMFG fór fyrst fram árið 2012. Vefur Grindavíkurbæjar greinir frá þessu.

Á þeim tíma sem fyrsta þorrablót UMFG fór fram birtust fréttir í blöðum og á vefmiðlum um að sífellt fleiri íþróttafélög hafi þurft að slá af þorrablót sín, og um leið mikilvægar fjáraflanir, fyrir reksturinn. Engu að síður var farið af stað með það markmið að koma á árlegu þorrablóti í Grindavík.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Vinsældir þorrablótsins í Grindavík hafa vaxið á undanförnum árum. Miðar á þorrablótið í ár seldust upp á mettíma og um tíma leit út fyrir að færri kæmust að en vildu.

Þó svo fjölmargir aðilar hafi lagt sitt af mörkum, þá eiga þeir einstaklingar sem setið hafa í þorrablótsnefndum UMFG, sérstakt hrós skilið fyrir að byggja upp af mikilli fórnvísi vinsælan viðburð sem margir Grindvíkingar bíða spenntir eftir í svartasta skammdeginu.

Nefndin horfði einmitt líka til þeirra jákvæðu strauma sem hríslast um allt samfélagið í janúar ár hvert í aðdraganda og kjölfar þorrablótsins Það er mikilvægt að hafa vettvang fyrir íbúa til að koma saman á þessum tíma árs.

Að þessu sögðu þá hefur tekist að byggja upp viðburð sem sýnir samheldni og styrk bæjarfélagsins. Til þess þarf einstaklinga sem eru læsir á bæjarfélagið sitt. Telur frístunda- og menningarnefnd Grindavíkurbæjar þorrablótsnefnd UMFG vel að verðlaununum komin.

Verðlaunin afhent í 14 sinn

Verðlaunin voru fyrst afhent árið 2010 og hafa verið veitt árlega síðan þá til einstaklings, stofnunar eða samtaka sem viðurkenning fyrir eftirtektarvert framtak á sviði lista og/eða menningar. Hlutverk verðlaunanna er m.a. að vera almenn hvatning til eflingar menningar- og listastarfs í sveitarfélaginu.

Í upphafi hvers árs auglýsir frístunda- og menningarnefnd Grindavíkurbæjar eftir tilnefningum frá bæjarbúum. Nefndin fer yfir þær tillögur sem berast og tekur ákvörðun um verðlaunahafa.

Eftirtaldir hafa fengið menningarverðlaun Grindavíkurbæjar:

2010 Saltfisksetur Íslands í Grindavík og Ómar Smári Ármannsson
2011 Aðalgeir og Kristinn Jóhannssynir
2012 Þorbjörn hf.
2013 Einar Lárusson
2014 Halldór Lárusson (bæjarlistamaður)
2015 Harpa Pálsdóttir
2016 Helga Kristjánsdóttir (bæjarlistamaður)
2017 Minja- og sögufélag Grindavíkur
2018 Anna Sigríður Sigurjónsdóttir (bæjarlistamaður)
2019 Halla María Svansdóttir
2020 Kristín E. Pálsdóttir
2021 Kristinsson og VIGT
2022 Kvikan menningarhús
2023 Þorrablótsnefnd UMFG