Þórkalta með kökubasar í verslunarmiðstöðinni í Grindavík í dag
Undanfarin ár hafa stelpurnar í slysavarnardeildinni Þórkötlu selt blóm á konudaginn en nú verður sú breyting á að þær ætla að baka kökur og selja til fjáröflunar starfsemi deildarinnar. Þórkötlurnar eru ein öflugasta kvennadeildin á landinu og til að standa undir því þarf að sinna gríðarlegu starfi. Blómasalan hefur í gegnum tíðina skilað deildinni góðum tekjum en þó hafa þær minnkað síðustu árin. Mikil vinna og allt að 3ja vikna undirbúningur hefur fylgt blómasölunni og til að mynda hafa þær keyrt blómum upp í Mosfellsbæ og út í Garð. Þykir þeim miður að þurfa að hætta þessari þjónustu við sjómenn og aðra menn sem gleðja vilja eiginkonur sínar og kærustur en nú eru breyttir tímar og hægt er að versla blóm nánast hvar sem er. Núna á föstudaginn verða þær með kökubasar í verslunarmiðstöðinni í Grindavík og gefst þá öllum kostur á að sytðja við starfsemi deildarinnar og fá þá eitthvað gómsætt í staðinn. Stelpurnar í Þórkötlu vilja koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem hafa stutt þær í gegnum tíðina með því að kaupa blóm á konudaginn.
Þórkötlurnar fást talsvert við forvarnarstarf og á föstudaginn buðu þær börnum sem fædd er 1999 og 2000 upp á leiksýningu hjá Brúðubílnum. Sýningin er byggð á sögunni "Númi og höfuðin sjö" sem kom út árið 2000 og gaf þá Landsbjörg öllum leikskólum landsins eintak af bókinni. Landsbjörg fékk svo brúðuleikhús Helgu Steffensen til að setja upp sýninguna og er það svo verkefni deildanna að bjóða upp á sýningar fyrir börnin. Fjáraflanir sem Þórkötlurnar standa fyrir fara upp í kostnaði við slík verkefni og ýmislegt fleyra sem brennur á þeim og hefur forvarnargildi. Geta því allir fjölmennt í Verslunarmiðstöðina á föstudaginn næst komandi og stutt við bakið á Slysavarnardeildinni Þórkötlu.