Þórhildur Inga Ólafsdóttir dúx Háskólabrúar
4.805 einstaklingar hafa útskrifast úr Keili
Keilir - Miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs útskrifaði 36 nemendur við hátíðlega athöfn í Hljómahöll í Reykjanesbæ föstudaginn 12. janúar. Athöfnin var vel heppnuð og hafa nú 4.805 einstaklingar útskrifast úr námi við skóla miðstöðvarinnar.
Í athöfninni voru útskrifaðir 34 nemendur af Háskólabrú og tveir af Menntaskólanum á Ásbrú.
Bjartey Sveinsdóttir og Gígja Skjaldardóttir hófu athöfnina með ljúfu tónlistaratriði fyrir viðstadda. Því næst flutti Nanna Kristjana Traustadóttir, framkvæmdastjóri Keilis, ávarp og stýrði sjálfri athöfninni.
Háskólabrú brautskráði samtals 31 í fjarnámi og þrjá í staðnámi. Berglind Kristjánsdóttir, forstöðumaður Háskólabrúar, flutti ávarp og afhenti skírteini og viðurkenningarskjöl ásamt Helgu Lind Sigurbergsdóttur, verkefnastjóra Háskólabrúar. Dúx Háskólabrúar var Þórhildur Inga Ólafsdóttir með 9,59 í meðaleinkunn og fékk hún peningagjöf frá Arion banka og Keili sem viðurkenningu fyrir góðan námsárangur. Sjöfn Ingvarsdóttir hélt ræðu fyrir hönd útskriftarnema Háskólabrúar. Þá var Guðnýju Frímannsdóttur afhentar rósir fyrir að vera nemandi númer 2.500 sem útskrifast af Háskólabrú.
Háskólabrú hefur boðið upp á aðfaranám til háskóla frá árinu 2007 og hafa á þeim tíma átt sér stað miklar framfarir í kennsluháttum samhliða breyttum þörfum og kröfum nemenda. Nú geta nemendur því valið að sækja Háskólabrú í staðnámi eða fjarnámi, bæði með og án vinnu sem og viðbótarnám við stúdentspróf á verk- og raunvísindadeild. Boðið er upp á Háskólabrú í samstarfi við Háskóla Íslands og gildir námið til inntöku í allar deildir háskólans.
Fimmta útskrift Menntaskólans á Ásbrú
Menntaskólinn á Ásbrú brautskráði samtals tvo nemendur af stúdentsbraut í tölvuleikjagerð. Ingigerður Sæmundsdóttir, forstöðumaður MÁ, flutti ávarp og afhenti skírteini ásamt Skúla Frey Brynjólfssyni, áfangastjóra.
Þetta var fimmta útskrift Menntaskólans á Ásbrú sem hóf starfsemi haustið 2019 þegar fyrstu nemendur skólans hófu nám á stúdentsbraut í tölvuleikjagerð. Stúdentsbrautin er skipulögð sem þriggja ára nám þaðan sem nemendur útskrifast með staðgóða þekkingu í ýmsu sem tengist tölvuleikjagerð og fleiri skapandi greinum. Námið byggir á hagnýtum verkefnum með sterkri tengingu við atvinnulífið þar sem lögð er áhersla á færni til framtíðar, nútíma kennsluhætti og vinnuaðstöðu í sérklassa. Jafnframt býður MÁ einnig upp á opna braut en auk hefðbundinna kjarnagreina vinna nemendur með færni og þekkingu sem býr þá undir nám í ýmsum deildum háskóla.