Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Fréttir

Þorgerður ráðin til Fríhafnarinnar úr hópi 100 umsækjenda
Þriðjudagur 7. október 2014 kl. 10:29

Þorgerður ráðin til Fríhafnarinnar úr hópi 100 umsækjenda

 
Þorgerður Þráinsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar úr hópi rúmlega eitt hundrað umsækjenda. Hún mun hefja störf hjá Fríhöfninni á næstu vikum.
 
Þorgerður hefur góða og víðtæka reynslu af stjórnun og smásölurekstri. Hún kemur til Fríhafnarinnar frá Lyfju hf. þar sem hún sat í framkvæmdastjórn í tíu ár, síðast sem forstöðumaður verslana- og markaðssviðs en þar á undan sem starfsmannastjóri. Áður hefur hún meðal annars starfað sem ráðgjafi hjá IBM Business Consulting Services í mannauðsmálum og rannsóknum.
 
Þorgerður er með BA og Cand.Psych gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands og hefur jafnframt lokið PMD stjórnendanámi frá Opna háskólanum.
 
„Það eru spennandi verkefni framundan hjá Fríhöfninni. Ég hlakka til að takast á við þau og kynnast starfsfólkinu sem starfar hjá fyrirtækinu. Farþegum um Keflavíkurflugvöll hefur líka fjölgað mikið að undanförnu sem felur í sér bæði tækifæri og áskoranir fyrir Fríhöfnina“ segir Þorgerður.
 
Fríhöfnin er í hópi framúrskarandi fyrirtækja á Íslandi og hefur hlotið fjölda viðurkenninga síðastliðin ár, m.a. í starfsmenntamálum, fyrir að vera besta fríhöfnin í Evrópu og vera fjölskylduvænt fyrirtæki. Fríhöfnin rekur fimm verslanir í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og þar starfa um 140 manns. Tekjur Fríhafnarinnar hafa vaxið jafnt og þétt undanfarin ár og hefur Fríhöfnin á s.l. fjórum árum skilað nálægt 10 milljörðum króna til eigenda sinna.
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024