Þorbjörn fer yfir stöðuna í Grindavík 22. janúar
Í dag og síðustu daga hefur gríðarlega mikill kraftur verið lagður í ýmis verkefni í Grindavík sem okkur langar að segja aðeins frá. Svona byrjar pistill sem Björgunarsveitin Þorbjörn í Grindavík sendi frá sér nú í kvöld.
Sveitir pípara og rafvirkja í fylgd viðbragðsaðila hafa farið um bæinn og unnið hörðum höndum að því að koma hita á hús. Misjafnt er hvort eða hversu mikil vinna fer fram á hverjum stað fyrir sig en reynt hefur verið að komast yfir eins mörg hús og kostur er. Þessi vinna er langt komin, eða nánast búin, þegar þetta er skrifað.
Hópar á vegum Landsnets og HS Veitna hafa unnið að því að koma raflínu milli Svartsengis og Grindavíkur í gagnið og tókst það nú í kvöld.
Jarðvinnuverktakar ásamt Slökkviliði Grindavíkur og starfsmönnum bæjarins hafa unnið að því að koma kaldavatnslögninni inn í bæinn í gang aftur. Til þess þarf að moka töluverðu af nýju hrauni sem enn er um 700° heitt. Þessi vinna gengur vel og vonandi verður hægt að hleypa vatni á innan tíðar.
Grindvískir jarðvinnuverktakar hafa síðustu daga opnað tvær sprungur sem þveruðu Hópsbraut og vinna nú að viðgerðum svo hægt verði að aka Hópsbrautina á ný. Þessar viðgerðir eru samskonar þeim sem farið var í á Ránargötu, við kirkjuna, eftir skjálftana 10. nóvember.
Búið er að setja upp fleiri hundruð metra af girðingum til þess að girða af þau svæði þar sem sprungur eru og jarðfall mögulegt. Sérstaklega er verið að girða af opin svæði þar sem ekki hefur verið sett styrking í undirlagið eða sprungur hreinlega opnar.
Allir sem vinna í Grindavík þessa dagana þurfa að fylgja ströngum öryggiskröfum og fá sérstakar öryggisleiðbeiningar. Til dæmis þá þarf hver og einn að vera í fallvarnarbelti og með hjálm í fylgd með viðbragðsaðilum sem eru svo með gasmæli og fjarskiptabúnað til viðbótar. Á iðnaðarsvæðinu austast í Grindavík, t.d. í Staðarsundi, þurfa menn að vera tryggðir í öryggislínum á meðan unnið er þar.
Búið er að smíða eina færanlega fimm metra stálbrú til þess að þvera sprungur og auka öryggi þeirra sem starfa í Grindavík. Til stendur að smíða aðra samskonar brú til þess að geta haft fleiri vegi opna í einu.
Þær götur sem eru lokaðar í Grindavík vegna skemmda eru Eyjasund og Fiskasund. Hópsbraut og Austurvegur eru lokaðar vegna framkvæmda og viðgerða. Búið er að opna Ránargötu að Víkurbraut aftur eftir að hún lokaði 10. nóvember síðastliðinn sem eru gleðitíðindi.
Allar þessar aðgerðir miða að því að auka öryggi þeirra sem eru í Grindavík hverju sinni með það að markmiði að verðmætabjörgun geti hafist um leið og færi gefst. Mikil áhersla er nú lögð á að skipuleggja verðmætabjörgun í bænum en eins og fram hefur komið verður ekki hægt að fara í slíkar aðgerðir fyrr en að hættumatskort Veðurstofu Íslands breytist.
Að lokum viljum við koma á framfæri miklu þakklæti til allra þeirra sem tekið hafa þátt í verkefnum í Grindavík að undanförnu. Samhugur og samstarf hefur einkennt starfið en upp undir 100 manns hafa verið við störf á degi hverjum.
Þetta kemur fram í pistli frá Björgunarsveitinni Þorbirni.