Þór sækir fallbyssu til Helguvíkur
Nýja björgunar- og varðskipið Þór er nú í Helguvíkurhöfn. Þangað er skipið komið til að sækja fallbyssu sem komið verður fyrir á skipinu. Einnig hafa sérfræðingar í búnaði skipsins verið að taka út tækjabúnað sem reynsla er að komast á eftir langa siglingu frá Chile og eftir fyrsta útkall á skipið sem kom um síðustu helgi.
Síðan þá hefur Þór farið umhverfis Ísland á örfáum dögum með viðkomu á Ísafirði í gær og svo í Helguvík í dag.
Skipið er ekki til sýnis að þessu sinni en Þór mun fara hringferð um landið á næstu vikum þar sem komið verður víða við og skipið sýnt landsmönnum.
Skipherra á Þór er Keflvíkingurinn og Hafnamaðurinn Sigurður Steinar Ketilsson. Hann tók í dag á móti sendinefnd frá atvinnu- og hafnaráði Reykjanesbæjar og bæjarstjóra Reykjanesbæjar, sem skoðaði skipið í Helguvíkurhöfn.
Þór var boðinn velkominn í verðandi heimahöfn sína með formlegu bréfi sem var afhent Sigurði Steinari skipherra. Hann ætlaði að koma því áfram á Georg Lárusson forstjóra Landhelgisgæslunnar. Bréfinu fylgdi veglegur konfektkassi sem skipherrann tók fram að myndi ekki fylgja bréfinu í höfuðstöðvarnar.
Í bréfinu var Landhelgisgæslunni óskað allra heilla með nýtt björgunar- og varðskip og ítrekað boð Reykjanesbæjar að skipið fái heimahöfn í Reykjanesbæ, enda séu hafnaraðstæður í Reykjanesbæ eins og best verður á kosið fyrir varðskip Landhelgisgæslunnar.
Þór verður áfram í Helguvík í dag en eins og fyrr segir verður fallbyssu komið fyrir á skipinu í Helguvík.
Einar Magnússon, formaður atvinnu- og hafnaráðs Reykjanesbæjar, afhendir Sigurði Steinari skipherra bréf til forstjóra Landhelgisgæslunnar og veglegan konfektkassa, sem reyndar mun ekki fara í höfuðstöðvarnar, heldur borðaður um borð.
Sigurður Steinar Ketilsson, skipherra, við stýrið í Þór.
Myndir: Hilmar Bragi Bárðarson