Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þór með draugaskip við Hafnir
Mánudagur 4. nóvember 2013 kl. 13:39

Þór með draugaskip við Hafnir

Léttabátur frá varðskipinu Þór flutti slökkviliðsmenn frá Þór og yfir í flutningaskipið Fernanda nú í hádeginu. Verkefni þeirra var að kanna hvort eldur logaði enn í skipinu. Varðskipið hefur legið í vari með flutningaskipið skammt undan landi við Merkines í Höfnum frá því í nótt. Fernanda er nú eins og draugaskip og er illa farið eftir að hafa brunnið í marga sólarhringa.

Eldur kom upp í flutningaskipinu Fernanda þegar það var á leið til Sandgerðis sl. miðvikudag. Þyrla Landhelgisgæslunnar bjargaði þá 11 manna áhöfn skipsins um 20 sjómílum sunnan við Vestmannaeyjar. Varðskipið Þór tók síðar skipið í tog og fór með það til Hafnarfjarðar. Þá gaus upp mikill eldur að nýju í skipinu og var því brugðið á það ráð að draga brennandi skipið úr höfn og haldið djúpt út fyrir Garðskaga. Þar hélt skipið áfram að brenna. Vegna slæmrar veðurspár var ákveðið að halda í var  við Hafnir og þangað kom Þór með skipið í togi í nótt.

Eins og fyrr segir var farið um borð í flutningaskipið í hádeginu til að kanna aðstæður. Í framhaldinu verður tekin ákvörðun um hvort óhætt verður að halda með skipið til hafnar þar sem mögulegt verður að dæla úr því olíu og undirbúa skipið fyrir niðurrif.

Ljósmyndari Víkurfrétta, Hilmar Bragi Bárðarson, var við Merkines í Höfnum í hádeginu og tók þá meðfylgjandi myndir af Þór með „draugaskipið“ í eftirdragi, því eins og myndirnar sýna er Fernanda illa farin og gjörónýt eftir margra daga bruna um borð.



Eins og sjá má á þessari mynd sem tekin var í hádeginu er flutningaskipið Fernanda gjörónýtt eftir að hafa brunnið í marga sólarhringa.

Varðskipið Þór og flutningaskipið Fernanda skammt undan landi við Merkines í Höfnum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson // [email protected]