Þolinmæði og agi mikilvægustu eiginleikarnir
Söngkonan Berta Dröfn Ómarsdóttir byrjaði sex ára gömul að syngja með kirkjukórnum í Grindavík og þóttist þá syngja eftir texta í sálmabókinni. Síðar í þessum mánuði lýkur hún masternámi frá Conservatorio Claudio Monteverdi í Bolzano á Ítalíu. Þegar eru nokkur spennandi verkefni á dagskránni hjá Bertu eftir útskrift, þar á meðal þátttaka í söngvarakeppni í Scala óperunni og tónleikar í Salnum í Kópavogi 5. janúar.
Síðan í barnæsku hefur Berta Dröfn verið syngjandi og segist hafa verið hávært barn. Aðeins sex ára gömul byrjaði hún að syngja með kirkjukórnum í Grindavík, enda lá það beint við þar sem móðir hennar, Jóna Kristín Þorvaldsdóttir, var prestur í Grindavík. „Ég og vinkona mín vorum yngstar í kórnum og vissum ekki einu sinni hvernig við ættum að snúa sálmabókinni sem við þóttumst vera að syngja upp úr,“ segir Berta.
Fyrstu tónlistarkennararnir voru Siguróli Geirsson organisti og Vilborg Sigurjónsdóttir píanókennari. Þau stjórnuðu kirkjukórnum og söng Berta með honum alla grunnskólagönguna og fékk þar mörg tækifæri til að syngja einsöng. Síðar söng Berta með unglingakór hjá Esther Helgu Guðmundsdóttur og sótti einkatíma til hennar. Síðan nam hún söng við Söngskólann í Reykjavík og hefur sótt námskeið víða.
Berta er núna að ljúka masternámi frá tónlistarháskóla á Ítalíu og að stíga fyrstu skrefin sem söngkona á erlendri grund. Í byrjun sumars fór hún á vegum skólans til Toscana héraðsins og söng tónlist eftir Brahms undir handleiðslu þýskra söngþjálfara. Tónleikarnir og æfingar fóru fram í höll í Montepulicino og segir Berta það hafa verið ævintýralega upplifun. Hún hefur einnig sungið í kastala í Prissiano, litlu fjallaþorpi við ítölsku alpana og í óperu-uppsetningum, meðal annars með sinfóníuhljómsveitinni í Bolzano. Útskriftartónleikar Bertu frá skólanum verða 27. október og er undirbúningur í fullum gangi. Hún skilaði mastersritgerðinni á dögunum, 90 blaðsíðna riti á ítölsku og náði í henni að sameina öll sín helstu áhugamál; sönglist, sviðslist, tónlist, listasögu, barokk og ítalskt tungumál.
Fékk aðstoð í grunnskóla vegna lesblindu
Strax að loknu stúdentsprófi flutti Berta til Flórens og lauk diplómanámi í fatahönnun. Þar varð hún ástfangin af landi og þjóð. Í framhaldinu lauk hún BA prófi í ítölsku og listfræði frá Háskóla Íslands. Eftir það hefur hún starfað sem ítölskumælandi leiðsögumaður á Íslandi og var því nokkuð vel undirbúin fyrir mastersnámið. Það að skrifa langa ritgerð á ítölsku var þó eitthvað sem hana hefði aldrei grunað í æsku að hún ætti eftir að gera því hún er lesblind. Í Grunnskólanum í Grindavík sótti hún alla þá námsaðstoð sem í boði var, sótti aukatíma í lestri og fékk aðstoð við heimanámið bæði í skólanum og heima við. Fjölskyldan og kennarar studdu vel við Bertu sem er þeim þakklát fyrir þolinmæðina því að sjálf sá hún ekki alltaf tilganginn með því að læra að lesa. Á tímabili í grunnskóla var æðsti draumurinn að eiga sjoppu svo hún þyrfti aldrei framar að greiða fyrir nammi.
Þegar Berta lauk grunnskóla notaði hún lesgleraugu með dökk fjólubláu gleri og litaðar glærur við lesturinn. Námsefnið fékk hún sent frá Blindrabókasafninu og prófin voru ýmist lesin upp fyrir hana eða spiluð af snældu. „Í menntaskóla var ég orðin nokkuð sjálfbjarga við lesturinn og búin að þróa með mér lærdómsaðferðir sem virka fyrir mig. Í dag hrjáir lesblindan mig ekki neitt og ég er meir að segja farin að lesa mér til gamans,“ segir hún. Eftir menntaskóla hefur Berta ekki nýtt sér neina aðstoð við námið og fór í gegnum mastersnámið án aðstoðar við lesturinn. Hún er aðeins lengur að lesa en gengur og gerist en það gengur vel. Hún segir þolinmæði og aga mikilvægustu eiginleikana, bæði þegar kemur að lesblindu og raddþjálfun.
Syngur í keppni í Scala óperunni
Skólinn á Ítalíu var að sögn Bertu flókinn til að byrja með. Hún var þá eini Íslendingurinn og þekkti engan. Fyrirkomulagið í skólanum er þannig að hver nemandi setur saman sinn námsferil. Svo fylgjast nemendur með skilaboðum frá prófessorum á risastórri korktöflu við inngang skólans. „Skilaboðin eru um það hvenær kúrsar hefjast, hvaða netföng prófessorar eru með og svo framvegis. Mér fannst þetta alveg hrikalega flókið fyrst enda góðu vön úr tæknivæddum heimi á Íslandi þar sem nemendur fylgjast með allri sinni námsframvindu á vefnum.“ Berta valdi þennan tónlistarháskóla sérstaklega vegna eins kennara, Sabinu von Walther, sem er þekkt ljóðasöngkona.
Nokkur spennandi verkefni eru framundan hjá Bertu eftir útskrift í október. Í nóvember tekur hún þátt í söngvarakeppni í Scala óperunni í Mílanó og segir það hrikalega spennandi tækifæri að fá að syngja í einu frægasta óperuhúsi í heimi. Margir keppendur taka þátt í mismunandi greinum og tekur Berta þátt í ljóða- og oratoríukeppninni. Hún segir slíkar keppnir mikilvægar í þessum bransa til að sýna sig, koma sér á framfæri og mynda tengsl. Sigurvegararnir fá peningaverðlaun og tækifæri til að koma víða fram á tónleikum. Einnig er á dagskránni að syngja Messu eftir Mozart á tónleikum á Ítalíu, óperettuna Kátu ekkjuna og á einsöngstónleikum með sönglögum eftir Tosti.