Þolinmæði lögreglumanna á þrotum
Haldinn var fjölmennur félagsfundur félagsmanna Lögreglufélags Suðurnesja í gær. Tilefni fundarins var að ræða veika kjaralega stöðu lögreglumanna. Segir m.a. í ályktun frá fundinum að það sé með öllu óviðunandi að lögreglumenn hafi verið kjarasamningslausir í 281 dag. Ennfremur segir í ályktuninni að á undanförnum árum hafi þær stéttir sem lögreglumenn beri sig svo oft saman við fengið áunnar kjarabætur sem hafi leitt til þess að lögreglumenn hafi orðið eftirbátar þessara viðmiðunarstétta.
Á þessum tíma hafi álag á löreglumenn aukist og við þetta verði ekki unað. Þann 30. júní s.l. var kjaradeilu lögreglumanna og viðsemjenda þeirra vísað í gerðadóm. Niðurstöðu er að vænta þann 23. september nk. Binda lögreglumenn miklar vonir við að sú niðurstaða verði lögreglumönnum ásættanleg annars er úr vöndu að ráða fyrir alla sem hlut eiga að máli. Lögreglumenn hafa verið að stilla saman strengi sína síðustu vikur þar sem þolinmæði þeirra er á þrotum.