Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Þjónustuhús við Reykjanesvita opnað sumarið 2017
Fyrirhugað þjónustuhús sem byggt verður á Reykjanesi og opnað 2017.
Laugardagur 5. nóvember 2016 kl. 06:00

Þjónustuhús við Reykjanesvita opnað sumarið 2017

Framkvæmdir fyrir 50 millj. kr. á ferðamannastöðum á Suðurnesjum á þessu ári

Fyrirtækið Reykjanes Aurora mun reisa og reka þjónustuhús við Reykjanesvita og er stefnt að opnun þess sumarið 2017. Áætlað er að taka fyrstu skóflustungu á næstunni að því er kom fram í máli Eggerts Sólbergs Jónssonar forstöðumanns Reykjanes Geopark, á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum nýlega.

Þjónustuhúsið verður um 300 fermetrar að flatarmáli og stækkanlegt. Kostnaður við byggingu þess er um 120 milljónir króna. Fjórir aðilar lýstu yfir áhuga á verkefninu en samið var við Reykjanes Aurora sem er í eigu aðila á Suðurnesjum. Í húsinu verður meðal annars veitingasala og snyrting en sárlega hefur vantað klósettaðstöðu á Reykjanesi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Deiliskipulag fyrir Reykjanesvita og nágrenni var samþykkt síðasta vor og er hönnunarvinna á þjónustuhúsinu á lokastigi. Ljúka átti við klæðningu bílastæða fyrir miðjan október síðastliðinn. Frágangur og stækkun eru á áætlun 2017.

Brimketill á Reykjanesi er vinsæll meðal ferðamanna og er nú unnið að gerð útsýnispalls fyrir ofan hann. Gert er ráð fyrir því að verkinu verði lokið fyrir árslok en ÍAV annast uppsetningu.

Unnið er að skipulagi umhverfisins við Gunnuhver en vegtengingu frá Reykjanesvita lauk í október. Gert er ráð fyrir því að lagfæra upplifunarsvæði við hverinn 2017 eða árið 2018.

Í máli Eggerts kom fram að unnið er að ýmsum úrbótum við vinsælustu ferðamannastaði á Suðurnesjum. Bregðast þarf við auknum ferðamannastraumi með því að laga umhverfi, vegamál og þjónustu á stöðunum. Þá sé unnið að samrýmdri ásýnd. Rúmar 47 milljónir króna fara til framkvæmda á þessu ári. Framkvæmdasjóður ferðamanna greiðir 25,6 milljónir króna, Bláa lónið og HS Orka greiða saman 6 milljónir í aukaframlag og Vegagerðin kom með 1,5 milljónir á þessu ári. Aðrir aðilar minna.

Ekki er vitað með vissu hver fjöldi ferðamanna sem sækir Suðurnesin er. Bifreiðatalning verður við sjö staði frá október 2016 en það eru Garðskagaviti, Hvalsnes, Keilir, Brú milli heimsálfa, Reykjanesviti, Gunnuhver og Brimketill. Í hluta sumars var talning í júlí og ágúst. Um 39 þúsund gestir sóttu Garðskaga heim í júlí og 43 þúsund í ágúst. Um 16 þúsund gestir sóttu Reykjanesvita heim í júlí og 22 þúsund í ágústmánuði.

Hér má hvernig þjónustuhúsið mun koma út í umhverfinu á Reykjanesi.

Útsýnispallur verður gerður við Brimketil sem er vinsæll staður á Reykjanesi.
Mynd: Snorri Þór Tryggvason.