Þjónustugjöldin lægri í Garðinum
- ASÍ skorar á sveitarfélagið að hækka ekki gjaldskrár
Þjónustugjöld Sveitarfélagsins Garðs eru mun lægri en í samanburði við önnur sveitarfélög á Suðurnesjum og víðar. Þetta kom fram á síðasta fundi bæjarráðs Garðs.
Við afgreiðslu fjárhagsáætlunar sveitarfélagsins Garðs fyrir árið 2014 voru þjónustugjöld leiðrétt sem nemur verðlagshækkunum frá september 2012 til september 2013. Gjaldskrá þjónustugjalda eins og hún var samþykkt við afgreiðslu fjárhagsáætlunar 2014 mun standa óbreytt.
Alþýðusamband Íslands hefur sent Garðmönnum erindi en þar kemur m.a. fram að til þess að ná megi markmiðum kjarasamninga um lága verðbólgu og þar með stöðugleika og aukinn kaupmátt, verði allir aðilar að axla ábyrgð og sýna samstöðu með því að halda aftur af verðhækkunum. Skorað er á sveitarfélagið að hækka ekki gjaldskrár, hafi það verið gert er hvatt til þess að hækkanir verði dregnar til baka.