Þjónusta fyrir börn með geðraskanir verður ekki felld niður á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja
Sigurjón Kristinsson, framkvæmdastjóri lækninga á heilsugæslu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, segir það ekki rétt að stofnunin sé að fella niður læknisþjónustu við börn með geðraskanir, eins og greint er frá í Víkurfréttum í dag. Breytingin sem um ræðir felst í því að í stað þess að viðkomandi læknar sinni þessu starfi sem verktakar við stofnunina verða þeir launþegar og stöðuhlutfall þeirra aukið eftir því. Ekki er ljóst hvort þessi breyting verður til frambúðar, ræðst það meðal annars af afstöðu heilbrigðisráðuneytis og stöðu stofnunarinnar í víðara samhengi. En starfsemin verður áfram til staðar og aldrei hefur staðið til að leggja hana niður, segir Sigurjón. Hann segir ljóst að Gylfi Jón Gylfason, yfirsálfræðingur Fræðsluskrifstofu, byggi mál sitt á röngum upplýsingum.
„Heilbrigðisstofnunin hefur lagt sig fram um að mæta þörfum þeirra barna sem hafa átt við sálfélagsleg og geðræn vandamál. Við stofnunina starfa bæði sálfræðingar og félagsráðgjafi sérstaklega í þessu verkefni auk barnalækna, heilsugæslulæknis og starfsfólks heilsugæslunnar. Hins vegar hafa sveitarfélögin á Suðurnesjum fyrir utan Grindavík dregið sig út úr því samstarfi tímabundið vegna rekstrarerfiðleika,“ segir Sigurjón.