Þjóðhátíðarræðan í Reykjanesbæ: Tækifærin framundan
Páll Ketilsson, ritstjóri Víkurfrétta flutti ræðu dagsins 17. júní í Reykjanesbæ.
Páll Ketilsson, ritstjóri Víkurfrétta flutti ræðu dagsins á þjóðhátíðardeginum 17. júní í Reykjanesbæ. Þar fjallar hann m.a. um tækifærin framundan, árangur á mjög mörgm sviðum en einnig miklar breytingar í bæjarfélaginu á undanförnum áratugum.
Hér kemur ræða Páls í heild:
Gleðilega hátíð kæru íbúar Reykjanesbæjar!
Þó svo við höfum þurft að upplifa frekar óvanalegt vorhret hjá veðurguðunum að undanförnu þá er sumarið komið þó sólin hafi ennþá ekki látið ljós sitt skína eins og undanfarin sumur. En það er eins með veðrið eins og margt annað, öll él birtir upp um síðir og þannig höfum við Suðurnesjamenn horft á málin undanfarin ár.
Það er ljóst að samfélagið hér suður með sjó hefur tekið stakkaskiptum á síðustu áratugum. Við máttum þola brottflutning varnarliðsins og vinna nánast úr því ein og hér urðu miklir erfiðleikar í kjölfar bankahruns. Í mörg ár var oftast mjög góð umræða um bæjarfélögin Keflavík og Njarðvík sem sameinuðust Höfnum í Reykjanesbæ fyrir nítán árum síðan. Við vorum góð í flestu, sérstaklega í íþróttum og tónlist og hér var næg atvinna. Önnur menning var kannski ekki efst á listanum, áherslan meiri á atvinnu en minni á menningalega afþreyingu sem hefur nú í seinni tíð hins vegar blómstrað þegar bæjarbúar höfðu meiri tíma frá vinnu og líka kannski með breyttum áherslum í mannlífi svæðisins.
Sem ritstjóri Víkurfrétta, fjölmiðils okkar Suðurnesjamanna í rúm 30 ár hefur maður upplifað góða og slæma tíma í samfélaginu á Suðurnesjum. Þegar maður flettir gömlum blöðum og skoðar umræðuna fyrir tuttugu eða þrjátíu árum sér maður að þetta hefur ekki alltaf verið dans á rósum en þó ekkert í samanburði við fyrri tíma. Ketill faðir minn sem er að verða 84 ára ára hefur sagt mér að kreppan sem við tölum um sé ekkert í samanburði við kreppurnar í gamla daga. Hann fór á sjó eftir fermingu og hann fór oft leitandi að eldivið í fjörunni í Höfnunum. Einu alvöru kröfurnar sem fólk gerði í gamla daga var að geta borðað. Kröfurnar okkar nú í seinni tíð eru mun meiri á öllum sviðum.
Erfiðleikarnir hér á Suðurnesjum hafa birst í ýmsum myndum og góða umræðan sem var oftast um svæðið hefur ekki verið til staðar á undanförnum árum. Í fjölmiðlum hefur umræðan ekki verið jákvæð og það hefur smitað út frá sér. Fólk í viðskiptum talaði um að Suðurnesin væri ekki gott markaðssvæði. Hér væri allt í kalda koli. Þessu vorum við á Víkurfréttum ósammála. Þó það væru erfiðleikar hafa Suðurnesjamenn staðið upp eftir kreppu og sýnt að í þeim býr mikill dugur. Hægt og hljótt hefur atvinnulífið verið á uppleið. Nýsköpun í formi hönnunar, tækni og menntunar hefur sprautað jákvæðu lífi í samfélagið á Suðurnesjum. Ferðaþjónustan er nú orðin stærsta atvinnugreinin á Suðurnesjum og gæti orðið sú stærsta á landinu. Suðurnesjamenn hafa snúið vörn í sókn. En þrátt fyrir það fannst okkur umræðan ekki vera nógu jákvæð. „Þið vælið stöðugt út af þessu álveri,“ hefur verið sagt. Jú, vissulega hafa flestir Suðurnesjamenn verið ósáttir við að risastórt atvinnutækifæri við bæjardyrnar stæði óhreyft. Af ýmsum ástæðum var sagt. Forráðamenn nýrrar ríkisstjórnar hafa lofað að kveikja ljósið sem þarf. Vonandi gerist það. Varla verður risabyggingum breytt í gróðurhús í Helguvík. Það er bara ekki raunhæft.
Við á Víkurfréttum ákváðum um áramótin að nú væri lag í að vekja enn meiri athygli á mörgu jákvæðu sem væri í gangi í Reykjanesbæ og á Suðurnesjunum öllum og einbeindum okkur að því að leita uppi jákvætt og skemmtilegt efni. Rífa upp móralinn ef svo má segja og sýna okkar rétta andlit. Því skyldi komið á framfæri í prentuðu máli, á vef Víkurfrétta og í nýjum sjónvarpsþáttum, Suðurnesja-magasíni.
Nærri 70 innslög í níu hálftíma sjónvarpsþáttum sýndum við hvar sókn Suðurnesjamanna liggur á öllum sviðum samfélagsins, í uppbyggingu atvinnulífs, íþróttum, menningu og listum. Vinna við þetta átak okkar eins og við viljum kalla það, var gríðarlega skemmtileg og viðbrögð Suðurnesjamanna hafa verið frábær. Þá hafa viðbrögð utan svæðisins einnig verið skemmtileg og jákvæð. Við höfum sýnt að hér býr dugandi, jákvætt og klárt fólk. Hér er ekki allt í kaldi koli.
Hér koma örfá dæmi um það sem við sýndum í þessum þáttum: Eldri borgarar sinna líkamsrækt og göngu í Reykjaneshöll, gríðarlegur fjöldi starfa í flugstöðinni, vefhönnunarfyrirtæki fékk verðlaun, í Reykjanesbæ er leiðandi fyrirtæki í gerð skólamatar og ótrúlegur vöxtur samfélagsins á Ásbrú þar sem nú starfa nærri því jafn margir og þegar Varnarliðið tók pokann sinn. Tónlistin hefur alla tíð verið öflug í Bítlabænum og það er ekkert lát á jákvæðum fréttum úr þeim geira. Við getum nefnt Of Monsters and Men og Valdimar eða sjö hundruð nemendur í Tónlistarskóla Reykanesbæjar að ógleymdri magnaðri menningu sem blómstrar nú hér á Suðurnesjum. Við eigum bestu skólahreystikrakka á landinu og höfum gert þrjú síðustu ár, margfalda íslandsmeistara í körfubolta, tækvandú og fleiri íþróttagreinum. Já, hér er gríðarlegt margt gott í gangi og það höfum við sýnt og sagt frá.
Í uppbyggingu nýs samfélags fara fremstir í flokki þeir einstaklingar sem kjörnir hafa verið til ábyrðarstarfa á Alþingi en auðvitað verða allir bæjarbúar að sinna sínu hlutverki. Það hafa nefnilega allir hlutverk og ábyrgð í þessu samfélagi, hver og einn í sínu starfi og eins hvernig við birtumst öðrum og tölum um bæjarfélagið okkar. Þrátt fyrir mikil loforð er ljóst að aldrei hægt að bæta allt það tjón sem varð í efnahagshruni. En það er framtíðin sem skiptir miklu máli. Uppbyggingin á næstu árum.
Í vor voru kosningar til Alþingis og eftir þær var í fyrsta sinn valinn Keflvíkingur, íbúi í Reykjanesbæ, til að sinna ráðherraembætti. Suðurnesjamenn eiga nú fleiri þingmenn en nokkru sinni fyrr. Ragnheiður Elín Árnadóttir fær vandasamt hlutverk sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra næstu fjögur árin. Við óskum henni góðs gengis og til hamingju.
Á næsta ári verða bæjar- og sveitarstjórnarkosningar. Reykjanesbær er eitt af leiðandi bæjarfélögum á landinu og þar á bæ er metnaður til að framfylgja því hlutverki til næstu ára. Sérstaklega er ánægjulegt að nefna stórbættan árangur grunnskólanema og næsta haust hefst ný öld í kennsluháttum þegar áttundu bekkir munu nota spjaldtölvu í námi sínu. Það verður fróðlegt og skemmtilegt að fylgjast með nemendum og kennurum í Reykjanesbæ leiða hér á landi nýja tækni í skólakerfinu.
Í nýlegri könnun skorar Reykjanesbær mjög hátt þegar spurt er um viðhorf til náms, þátttöku foreldra í heimanámi og fleiri þáttum er lúta að námi barna okkar. Það er jákvætt og þarna hefur viðsnúningur átt sér stað. Það má ekki gleyma því að menntun er ein af stoðum samfélagsins. Það er mikill munur á möguleikum ungs skólafólks í dag eða fyrir nokkrum áratugum. Í dag á það mun greiðari aðgang að frekari framhalds- og háskólamenntun og í þessu samhengi er ekki hægt að sleppa að nefna sérlega ánægjulega og frábæra uppbyggingu nýs skólasamfélags á Ásbrú.
Samfélagið á Suðurnesjum var á árum áður þannig að kröfurnar til framhaldsnáms voru ekki eins miklar því hér var næga vinnu að fá þar sem mikillar menntunar var ekki krafist, á sjó og hjá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli, vel borgaða vinnu á báðum stöðum. Það er ein af ástæðunum fyrir lægra menntunarstigi hér en annars staðar en með þessum nýju tækifærum hefur það verið á hraðri uppleið. Það má heldur ekki gleyma því að framboð atvinnu var það mikið á árum áðum að hingað flutti fjöldi fólks frá öðrum stöðum á landinu. Atvinnuleysi sem hér var fljótlega eftir efnahagshrun var eitthvað sem við höfðum aldrei upplifað.
Á næsta ári fagnar Reykjanesbær tuttugu ára afmæli. Sameining Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna var framfaraskref og þetta var fyrsta stóra sameining sveitarfélaga á Íslandi. Reykjanesbær hefur stækkað og dafnað, auðvitað með ýmsum vaxtaverkjum eins og eðlilegt er. Ásýnd bæjarins hefur breyst gríðalega mikið á undanförnum árum, svo mikið að gestir hafa það á orði enda hafa bæjaryfirvöld og bæjarbúar tekið höndum saman í því að hugsa betur um umhverfi okkar, sinna umhverfisþættinum betur.
Þetta hafa þeir meðal annars séð þegar þeir hafa komið á Ljósanótt sem er ein stærsta bæjarhátíð landsins. Hún hefur sameinað krafta, framsækni, áræðni og gleði okkar bæjarbúa. Á Ljósanótt opnum við hlið bæjarins og bjóðum gesti velkomna til að sjá árlega uppskeru okkar á öllum sviðum, sérstaklega í menningu, tónlist og listum. Eitthvað sem íbúar Reykjanesbæjar geta verið mjög stoltir af.
Að lokum þetta: Tækifærin eru sennilega hvergi jafn mörg framundan og hér suður með sjó, hér í Reykjanesbæ og nágrenni. Það skulum við nýta okkur með jákvæðni og áræðni og byggja saman upp nýtt samfélag en þó ekki gleyma því að hógværð er dyggð.
Ég þakka þann heiður að hafa verið beðinn um að sinna þessu hlutverki hér á þjóðhátíðardaginn. Fæðingardagur Jóns Sigurðssonar var gerður að þjóðarhátíðardegi Íslendinga við lýðveldisstofnunina árið 1944 en á næsta ári eru 70 ár síðan sá merki atburður átti sér stað. Ræður á þjóðhátíðardegi eru jafnan fluttar til að skerpa sýn á stöðu okkar samfélags. Þessi ræða mín vekur vonandi athygli á því að hér býr dugandi fólk og framtíð okkar samfélags er björt.
Kæru íbúar Reykjanesbæjar nær og fjær, ég óska ykkur öllum gleðilegrar þjóðhátíðar.