Þjálfun er stórt atriði hjá starfsfólki
segir Sigrún Halldórsdóttir, mannauðsstjóri Bláa lónsins sem fékk jafnlaunavottun. Starfsmenn frá 45 þjóðernum starfa hjá fyrirtækinu
„Það er ótrúlega samheldinn og metnaðarfullur hópur starfsmanna sem vinnur hjá Bláa lóninu, alls um 850 manns, sem hafa það verkefni að þjónusta viðskiptavini sem langflestir koma erlendis frá og bíða eftir magnaðri upplifun á okkar einstaka stað,“ segir Sigrún Halldórsdóttir, mannauðsstjóri Bláa lónsins.
Starfsfólkið er af mörgum þjóðernum sem býr yfir víðtækum þekkingarbrunni af tungumálum, menningarbakgrunni og þjálfun sem það hefur fengið í Bláa lóninu. Um helmingur eða 49% starfsfólksins kemur frá Suðurnesjum. Starfsfólki hefur fjölgað mikið á undanförnum árum samfara auknum fjölda gesta og þegar Reatreat hótelið var tekið í notkun fjölgaði því um 150 manns.
Sigrún segir að mikil áhersla sér lögð á þjálfun starfsfólks.
„Það er mjög stór þáttur. Við erum með sum sérhæfð störf sem við þurfum að þjálfa sérstaklega áður en fólk getur sinnt því af fullum krafti. Til að mynda eru gæslumenn hérna á lónssvæðinu sérþjálfaðir bæði í björgun og skyndihjálp. Þeir taka einnig sundpróf. Svo hugum við líka að persónulegri og faglegri þróun og þekkingu. Í fyrra buðum við upp á 212 námskeið. Við erum leggjum ofuráherslu á að geta verið ógleymanlegur gestgjafi, það er markmið sem við einsetjum okkur öll, hvort sem við erum að vinna á skrifstofunni eða í framlínu. Við þjálfum fólkið okkar svolítið þannig að það sé öruggt, finni til sjálfstrausts og viti til hvers sé ætlast.“
Það skiptir þá máli að starfsfólkið ykkar sé ánægt svo það standi sig sem best í sínu hlutverki?
„Já, það skiptir miklu máli og við leggjum mikla áherslu á að skapa hér gott vinnuumhverfi. Það hefur sýnt sig og sannað í þeim könnunum sem hafa verið gerðar að við skorum mjög hátt, bæði í starfsánægju og starfsanda. Starfsfólkið í Bláa lóninu mælir með Bláa lóninu sem vinnustað fyrir aðra. Við erum í rauninni bara eins og ein stór fjölskylda sem störfum hér og erum öll á jafningjagrundvelli og með sama markmið að leiðarljósi. Það er mikilvægt að það sé gaman í vinnunni. Það ýtir bara undir það að við séum öflug og veitum góða þjónustu,“ segir Sigrún.