Fréttir

Þingmenn takast á um samgöngumálin
Laugardagur 16. febrúar 2019 kl. 03:08

Þingmenn takast á um samgöngumálin

Veggjöld hafa verið mikið til umræðu síðustu mánuði og tilgangurinn með þeim er, að sögn margra þingmanna, að hraða vegaframkvæmdum og öðrum úrbótum í samgöngumálum landsins. Aðrir telja þó Íslendinga nú þegar vera að greiða skatta til slíkra framkvæmda sem ekki eru nýttir á þann hátt. Hart er tekist á um réttmæti slíkra gjalda á Alþingi nú um þessar mundir og ákváðu Víkurfréttir að hafa samband við þingmenn Suðurkjördæmis og fá fram þeirra skoðanir á slíkri gjaldtöku á svæðinu.
 
Hvorki náðist í þingmenn Vinstri grænna né Flokks fólksins við vinnslu fréttarinnar en þingmaður Miðflokksins, Birgir Þórarinsson, lýsir skoðun sinni á málinu í aðsendri grein í Víkurfréttum (sjá neðst í þessari umfjöllun).


 
Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra, Framsóknarflokki:

Flýti samgönguframkvæmda eru til hagsbóta fyrir samfélagið

 
Markmiðið með flýtiframkvæmdum er að auka umferðaröryggi, skilvirkni í umferðinni og fækka slysum. Ljóst er að ákveðnar framkvæmdir á fjölförnum stöðum þurfa að eiga sér stað á skömmum tíma. Umfang áætlaðra flýtiframkvæmda er um 10% af heildarsamgönguáætlun. Þær fela í sér alvöru framkvæmdir, s.s. breikkun vega, tvöföldun á vegum og aðskildar akstursstefnur. Tvöföldun Reykjanesbrautarinnar og aðskilnaður akstursstefna er gott dæmi um hve miklum árangri má ná með slíkum aðgerðum en verulega hefur dregið úr alvarlegum slysum á þeirri leið eftir framkvæmdina. Bylting verður í umferðaröryggi þegar Vesturlandsvegur og Suðurlandsvegur verða tvöfaldaðir. 
 
Veggjöld gera kleift að flýta framkvæmdum, líkt og þekkt var í Hvalfjarðargöngum. Gjaldtaka hófst og gjaldtöku lauk.
 
Forsenda þess að farið verði í gjaldtöku er gagnsæi um ráðstöfun fjármagns, að innheimt gjöld fari til afmörkuðu framkvæmdanna.
 
Flýti samgönguframkvæmdir eru til hagsbóta fyrir samfélagið. Unnið er að útfærslum, veggjöldum og öðrum leiðum. Ný tillaga um samgönguáætlun (með flýtiframkvæmdum) verður lögð fram í haust.

 
 
 
Vilhjálmur Árnason, Sjálfstæðisflokki:

Erlendir gestir greiða veggjöld og aðstoða okkur við uppbyggingu samgöngukerfisins

 
Ekki hefur náðst pólitísk sátt á Alþingi um að forgangsraða meiri fjármunum til samgöngumála sem eru að mínu mati velferðarmál númer eitt. Það hefur leitt til þess að við Íslendingar höfum verið, alveg frá árinu 1980, áratug á eftir öðrum löndum í samgöngumálum. Þar af leiðandi tel ég okkur verða að fara aðrar leiðir til að fylla upp í það 400 milljarða framkvæmdagat í samgöngumálum í stað þess að að bíða eftir fjármunum úr ríkissjóði. Það er hægt að gera á nokkra vegu, hækka almenn gjöld á umferð, selja eignir ríkisins og með sértækum gjöldum eins og gert var við fjármögnun Hvalfjarðarganga eða veggjöld. Ég tel að veggjöldin séu sú leið sem gæti komið hvað fyrst til framkvæmda og flýtt þeim hvað mest. Veggjöldin gera það að verkum að þeir gestir sem við fáum til landsins aðstoði okkur við uppbyggingu samgöngukerfisins.
 
Það er hægt að fara nokkrar leiðir við innheimtu veggjaldanna. Áherslan hefur verið á að hafa gjaldtökuna sem einfaldasta á sem fæstum stöðum og þannig að hún hafi sem minnst áhrif innan hvers samfélags. Aftur á móti með fleiri gjaldtökustöðum er hægt að hafa hvern legg ódýrari og stýra fjármagninu sem greitt er í nákvæmlega þann veg sem ekið er. Þessi sjónarmið þarf að vega og meta með heildarhagsmuni samfélagsins á Suðurnesjum í huga.
 
Ríkissjóður stendur vel, skuldir hafa verið greiddar niður og tekjur aukist. Því skal haldið til haga að aldrei hafa meiri fjármunir farið til samgöngumála en nú og hefur ríkisstjórnin forgangsraðað aukalega 5,5 milljörðum næstu þrjú árin til samgöngumála. Samt sem áður þarf um fimmtán milljarða á ári næstu sex árin til að svara brýnasta kallinu um samgönguúrbætur. Yrði þetta fjármagnað úr ríkissjóði þyrfti að draga úr fjárframlögum til fjölda annarra málaflokka, samanlagt um fimmtán milljarða en flestir málaflokkar eins og heilbrigðismál, almannatryggingar og menntamál eru að óska eftir enn meira fjármagni í sína starfsemi. Sala á eignum ríkisins er vissulega spennandi en ég tel að slíkt muni taka tíma enda ekki komið nægt traust í samfélaginu enn fyrir slíkum aðgerðum.

 
 
 
Silja Dögg Gunnarsdóttir, Framsóknarflokki:

Ég er tilbúin til að borga hófleg veggjöld til að bæta vegakerfið

 
Brýnt er að endurbæta vegakerfið sem er víða bágborið og byggt upp fyrir mun minni umferð en við erum að upplifa núna. Umferðaröryggi okkar er ógnað og slysin eru of mörg. Í mínum huga þá verður að flýta einstökum framkvæmdum á þeim vegum sem umferðin er hvað mest til að tryggja öryggi allra í umferðinni. Ég er tilbúin til að borga hófleg veggjöld ef það er það sem til þarf til að bæta vegakerfið og gera þá öruggari.
 
Að mínu mati þarf gjaldið að endurspegla þann kostnað sem er á hverju svæði, þannig að fólk viti fyrir hvaða framkvæmdir er verið að borga.
 
Aðalmálið er að endurbæta vegakerfið á styttri tíma en samgönguáætlun gerir ráð fyrir. Þess ber einnig að geta að aldrei áður hefur verið gert ráð fyrir jafn miklu fjármagni til samgöngumála. Því ber að fagna.
 
 

Smári McCarthy, Pírötum:

Skref í átt að einkavæðingu vegakerfisins

 
Almenn veggjöld munu ekki leysa neitt vandamál sem er til staðar á Íslandi og ég er því andvígur því að almenn heimild verði veitt fyrir setningu þeirra í lögum.
 
Það er rétt sem samgönguráðherra sagði 24. október 2017 að afgangur af rekstri ríkissjóðs er alveg nægur til að fara í þær framkvæmdir sem þörf er á, þar með talið að klára tvöföldun Reykjanesbrautar sem og breikkun Grindavíkurvegar. Hann sagði í aðdraganda kosninga í viðtali á RÁS 1 orðrétt: „Við erum á móti veggjöldum. Við ætlum að nota ríkulegan afgang af ríkisfjármálunum. Við ætlum að setja tíu milljarða í samgöngumálin.“ Hann talaði um að það væru nægir peningar í þessar framkvæmdir.
 
Það að taka upp almenn veggjöld virðist fyrst og fremst snúast um að opna á skref í átt að einkavæðingu vegakerfisins, sem gengur gegn þeirri grundvallarreglu að innviðir landsins séu almennt aðgengilegir almenningi til afnota óháð efnahagsstöðu. Og vittu til, um leið og veggjöld komast á mun Sjálfstæðisflokkurinn nota tilvist þeirra sem tylliástæðu til að lækka framlög til samgöngumála. Við vitum að það er tilfellið vegna þess að þannig hefur það verið með svo margar gjaldskrárbreytingar í gegnum tíðina.
 
 
 
Oddný G. Harðardóttir, Samfylkingu:

Við eigum að láta þá greiða sem geta og taka eðlilegt gjald fyrir auðlindir okkar

 
Vegakerfi landsins hefur verið vanrækt of lengi. Strax eftir hrunið urðum við að skera niður á öllum sviðum og í samgöngum, bæði til nýframkvæmda og viðhalds. Síðan var það pólitísk ákvörðun Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að svelta vegakerfið áfram þegar betri stöðu var náð og þess vegna erum við í vondri stöðu í dag þó staða ríkissjóðs sé góð. Það liggur á framkvæmdum og viðhaldi út um allt land og ég er sammála því að flýta nauðsynlegum framkvæmdum og viðhaldi og setja einnig aukið fjármagn til almenningssamgangna. En það getur aldrei gengið. Eftir að hafa lækkað veiðigjöld um rúma þrjá milljarða króna, eins og ríkisstjórnin hefur gert, og boða lækkun skatta á fjármálafyrirtæki upp á sjö milljarða króna, að segja svo við almenning: „Ef þið viljið vegabætur og aukið umferðaröryggi þá verðið þið að opna veskið og borga vegaskatta.“ Eða þetta sem stjórnarþingmenn hafa líka sagt: „Ef þið viljið ekki vegaskatta þá þarf að skera niður í heilbrigðiskerfinu fyrir samgöngubótum.“ 
 
Ég vil vegabætur og aukið umferðaröryggi og tel það vera einn hluta velferðarinnar. Og fyrir þetta eigum við að greiða úr okkar sameiginlega sjóði, ríkissjóði. Við þurfum rúma tíu milljarða króna til viðbótar næstu fimm árin og við eigum ekki að veiða þá upp úr veskjum almennings sem flestir eru á lágum eða meðaltekjum. Við eigum að láta þá greiða sem geta og nærtækast í þeim efnum er að taka eðlilegt gjald fyrir auðlindir okkar og halda bankaskatti lengur, sem settur var á til að greiða fyrir það tjón sem bankarnir urðu valdir af fyrir hrun. Innviðaskuldin við samfélagið hefur ekki verið greidd. Þá skuld á almenningur ekki að greiða líka. Nóg er nú samt.
 
 
 

Vegna umræðu um veggjöld

 
Samgönguáætlun var afgreidd á Alþingi í síðustu viku. Áætlunin tók mikilvægum breytingum í meðförum umhverfis- og samgöngunefndar, undir forystu Miðflokksins. Má þar nefna að framkvæmdum við Reykjanesbraut verður flýtt og mun ljúka á næstu fimm árum en áform ríkisstjórnarinnar gerðu ráð fyrir því að þeim lyki á næstu tuttugu árum. Sá sem þetta ritar lagði fram hugmyndir um að flýta framkvæmdum enn frekar við Reykjanesbraut með því að nýta arðgreiðslur úr ríkisbönkunum við fjármögnun en um það var ekki samstaða. Þá ber að fagna því að brýnum framkvæmdum við Grindavíkurveg muni ljúka á þessu ári.
Samgönguráðherra skipaði starfshóp um samgöngumál sem hefur skilað niðurstöðu. Leggur hópurinn til að tilteknar framkvæmdir verði fjármagnaðar með gjaldtöku og að gjöld verði hófleg og tilgangur þeirra skýr. Fyrir nefndina komu fjölmargir gestir og tók meirihluti þeirra vel í hugmyndir um gjaldtöku ef slíkt gæti hraðað framkvæmdum. Var það m.a. sérstaklega nefnt að eðlilegt væri að ferðamenn greiði fyrir afnot af vegum landsins en á árinu 2017 komu 2,2 milljónir ferðamanna til landsins. 
Miklar umræður áttu sér stað í þinginu um málið.
 
Engar ákvarðanir um veggjöld hafa verið teknar
Rétt er að leggja áherslu á það hér að engar ákvarðanir hafa verið teknar um veggjöld. Samgönguráðherra ítrekaði það í fréttum fyrir fáeinum dögum en hefur engu að síður boðað frumvarp um veggjöld á vorþinginu. Gjaldtakan er háð því að frumvarpið verði samþykkt og er alls kostar óvíst að svo verði. Í því sambandi er rétt að benda á að hvergi er minnst á veggjöld í sáttmála ríkisstjórnarinnar. Vinstri grænir töluðu gegn veggjöldum fyrir kosningar og það sama gerði Framsóknarflokkurinn.
 
Hringlandaháttur samgönguráðherra
Kúvending Framsóknar í veggjaldamálinu er athyglisverð en formaður flokksins sagði það skýrt fyrir kosningar að veggjöld yrðu aldrei á hans vakt. Skipti hann síðan um skoðun eftir að hann settist í ríkisstjórn til að þóknast Sjálfstæðisflokknum. Ráðherra hefur svo aftur skipt um skoðun, núna strax að lokinni umræðu um málið á Alþingi segir hann í fréttum að veggjöld verði eftir fjögur til fimm ár. Þar með hlýtur hann að hætta við að leggja veggjaldafrumvarpið fram í vor, ef hann er sjálfum sér samkvæmur. Verður að telja að þetta nýjasta útspil ráðherrans setji málið í uppnám á ríkisstjórnarheimilinu. Það er algjörlega á skjön við það sem sjálfstæðismenn hafa boðað.
 
Gjöld á bifreiðaeigendur verða að lækka
Miðflokkurinn ákvað að styðja það innan umhverfis- og samgöngunefndar að veggjaldaleiðin yrði skoðuð. Vega þar öryggismálin þyngst og mikilvægi þess að geta flýtt framkvæmdum af þeim sökum. Hins vegar mun flokkurinn ekki styðja frumvarp um veggjöld, komi það þá yfir höfuð til afgreiðslu í þinginu, nema önnur gjöld á bifreiðaeigendur lækki á móti, eins og bifreiðagjald og gjöld á díselolíu og bensín. Er það alveg skýrt af hálfu flokksins. Gjöld á bifreiðaeigendur eru nú þegar í hæstu hæðum og verða að lækka.
 
Birgir Þórarinsson
Höfundur er þingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi.
 
Public deli
Public deli