Þingmenn, ráðherra og fulltrúar HSS funda á morgun
Allir þingmenn Suðurkjördæmis hafa verið boðaðir til fundar í húsakynnum Alþingis á morgun. Til fundarins hefur einnig verið boðið heilbrigðisráðherra og fulltrúum Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja til að fara yfir boðaðan niðurskurð og uppsagnir.
Björgvin G. Sigurðsson, fyrsti þingmaður Suðurkjördæmis boðaði til fundarins. Hann segir að ræða eigi um málið í heild sinni, forsendur reiknilíkans og framlög til stofnunarinnar í samanburði við aðrar slíkar og ekki síst ólíkan skilning á forgangsröðun í niðurskurði og umfangi hans m.a. eftir fund ráðherra og fulltrúa HSS fyrir helgina. Á fundinum á morgun gefst fulltrúum HSS og ráðherra færi á að fara yfir málið með þingmönnum og það hvernig hægt sé að bregðast við til að draga úr umfangi niðurskurðar.